Meðfylgjandi er uppskrift að gómsætum marenstoppum með heslihnetum og súkkulaði. Er ekki tilvalið að baka þessa fyrir jólin?
u.þ.b. 20 marenstoppar
3 eggjahvítur, við stofuhita
¼ tsk. cream of tartar
1/8 tsk. salt
150 g sykur
2 msk. flórsykur
50 g ristaðar hakkaðar heslihnetur
100 g saxað dökkt súkkulaði
Hitið ofninn í 120°C. Leggið smjörpappír ofan á ofnplötu og setjið til hliðar. Notið pískinn á hrærivélinni og þeytið eggjahvíturnar, cream of tartar og salt á meðalháum hraða þar til hvíturnar mynda mjúka toppa, u.þ.b. 3 mín.
Bætið sykrinum saman við smám saman, 1 stór msk. í einu, þar til allur sykurinn er kominn í skálina. Þeytið þar til topparnir eru stífir. Blandið saman flórsykri, heslihnetum og súkkulaði í skál og notið síðan sleikju til að blanda varlega saman við eggjahvíturnar.
Notið matskeið, ísskeið eða sprautupoka til að móta marenstoppa ofan á ofnskúffuna, passið að hafa u.þ.b. 3 cm á milli marenstoppanna. Bakið marensinn í 1 klst. og 15 mín.
Slökkvið á ofninum og skiljið ofnhurðina eftir með smárifu og látið marensinn þorna inni í ofninum í a.m.k. 2 klst., einnig er hægt að skilja hann eftir yfir nótt.
Mynd / Aldís Pálsdóttir