VesturVerk hefur sagt upp samningi við Vegagerðina um veghald á Ófeigsfjarðarvegi í Árneshreppi á Ströndum. Fyrirtækið tók verkefnið að sér í tengslum við fyrirhugaða virkjunarframkvæmd Hvalárvirkjunar en fer þess nú á leit við stofnunina að taka veginn yfir og kosta nauðsynlegar viðgerðir á veginum uppá að minnsta kosti 12 milljónir króna.
Þetta kemur fram í bréfi framkvæmdastjóra VesturVerks, Gunnar G. Magnússonar, til Vegagerðarinnar í síðasta mánuði þar sem ástæðan er sögð breyttar aðstæður á raforkumarkaði. Hann segir að fyrirtækið hafi nú þegar lagt til 35 milljónir króna en að nú þurfi Vegagerðin að taka við keflinu um viðhald vegarins. Gunnar ítrekar að ekki hafi verið hætt við Hvalárvirkjun. „Engin áform eru um að hætta við verkefnið en aðeins verið að hægja á því um óákveðinn tíma, meðal annars vegna aðstæðna á raforkumarkaði,“ segir Gunnar.
Vesturverk sem er að mestu í eigu HS Orku hugðist reisa Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði á Ströndum og virtist fátt koma í veg fyrir þær fyrirætlanir. Á endanum kom ekki til þess, framkvæmdum var slegið á frest í COVID-19 faraldrinum, en þær áttu að hefjast nú í sumar, skrifstofu Vesturverks var lokað og starfsfólki sagt upp.
Elís S. Kristinsson, sjómaður á Dröngum í Árneshreppi á Ströndum, furðar sig á því hversu illa vegurinn hafi verið unnin og að nú þurfti skattgreiðendur að borga brúsann við lagfæringar. Hann skilur ekkert í því hvers vegna ekki sé staðið við gylliboðin sem gefin voru fyrir virkjun. „Þarna æddu menn bara áfram og ekkert vandað til verka. Og nú eiga skattborgarar í formi Vegagerðarinnar að moka upp skítinn. Með veginum var verið að lofa gull og grænum skógum og svo hlaupa menn bara í burtu frá öllum gylliboðunum. Það eru svikið. Þetta er algjörlega galið,“ segir Elías.
Ekki er nóg að framkvæmdum við Hvalárvirkjun hafi verið slegið á frest heldur þarf að fara fram opinber rannsókn á öllu ferlinu segir Elías. Hann er sannfærður um að lög hafi verið brotin og hefur krafist lögreglurannsóknar.