Jóhann Helgason ræðir ferilinn og fræðgina í viðtali í nýjasta tölublaði Mannlífs.
Fyrsta plata Jóhanns kom út áður en sá sem þetta skrifar kom í heiminn þannig að vel lukkaður tónlistarferillinn spannar langt tímabil. Hann var hins vegar grýttur niður af sviðinu á fyrstu tónleikunum ungur að árum. Feimni tónlistarmannsins olli honum mikilli vanlíðan framan af og Jóhann faldi sig bak við loðfeld og sólgleraugu. Sögur um dópneyslu hans og samkynhneigð fylgdu honum lengi og særðu hann mjög.
Jóhann þakkar tíðum kúrekaleikjum í æsku í drullupollasveitinni Keflavík fyrir baráttuandann sem hefur gagnast honum í erfiðum málaferlum við risana í Los Angeles.
Prófaði flest
Jóhann viðurkennir að á þessum árum hafi hann prófað flest þau vímuefni sem á markaðnum finnast og að það hversu illa hann kunni við áhrifin hafi bjargað honum frá því að ánetjast þeim. Áfengið reyndist honum erfiðast. „Ég prufaði jú flest þessi efni sem voru þarna en ég slapp sem betur fer við að láta það leiða mig lengra. Það voru allir í kringum mig með eitthvað í álpappír en ég var oftast bara inni í eldhúsi á meðan. Ég bara fílaði ekki þessi efni, hefði ég gert það hefði ég samt örugglega verið með,“ segir Jóhann og rifjar upp allar sögurnar sem um hann gengu á sínum tíma varðandi dópneyslu.
„Einhvern tímann var Maggi stoppaður af fíkniefnalöggunni sem dró hann til hliðar og fór að ræða við hann um hvað staðan á mér væri slæm. Ég væri hreinlega alltaf skakkur með sólgleraugun. Þá held ég hins vegar að Maggi hafi sjálfur verið nýbúinn að fá sér eina feita. Ég hef oftast náð að höndla áfengi en ég hef líka oft ekkert hagað mér sérstaklega vel með víni. Ég hef verið leiðinlegur og sýnt á mér agressívari hliðar en ég hefði viljað. Ég sé auðvitað eftir því enda enginn sómi af.“
Lítið í ísskápnum
Heimsókn Jóhanns til systra hans í Bandaríkjunum árið 1964 var mikið ævintýri og síðar reyndi hann að gerast umboðssali fyrir amerískt tyggigúmmi á Íslandi. Aðspurður um hvort hægt sé að lifa af tónlist hér á landi segir hann það ekki alltaf hafa verið auðvelt og það hafi ekki hjálpað til að eiginkonan hafi líka verið í listum. Þó að börn hans og barnabörn hafi sum erft tónlistargenin er Jóhann feginn því að þau hafi ekki farið út í bransann. „Það er hægt að lifa á tónlist ef þú ert með alla anga úti. Það komið mörg tímabil þar sem lítið var til í ísskápnum og fulltrúinn í bankanum hefur skammað okkur hjónin að vera bæði í listum. Sú staðreynd að við erum bæði listafólk hefur hins vegar leyft okkur að kenna hvort öðru um að hafa ekki valið tekjuhærri starfsvettvang,“ segir Jóhann og brosir út í annað.
„Já, genin eru þarna. Fjölskyldan mín er auðvitað mesta gæfan. Fyrir utan tónlistina er ég ríkur maður í dag. Ég hef hvorki hvatt börnin né latt þau áfram í tónlistinni en ég vildi ekki ýta þeim út í bransann því hann er ekki auðveldur fyrir neinn. Að lifa á tónlistinni er þannig að stundum fiskast vel og stundum ekki. Hefði ég sjálfur átt að velja mér eitthvað annað hefði ég valið arkitektúr. Þar er maður líka að búa til einhver falleg form. Maður verður hins vegar að velja það sem hjartað kallar á og ég sé alls ekkert eftir því.“
Lestu viðtalið við Jóhann í nýjasta tölublaði Mannlífs.