Karitas Möller arkitekt og Kristinn Már Reynisson lögfræðingur fluttu á sérhæð við Lækinn í Hafnarfirði fyrir tæpum tveimur árum og hafa gert hana upp á einstaklega fallegan og sjarmerandi hátt.
Þegar Hús og híbýli kíkti í heimsókn var Karitas ein heima og búin að vera á haus að gera fínt. „Ég er búin að gera jólahreingerninguna í júlí,“ sagði hún og hló smitandi hlátri. Karitas segist hafa einstaklega mikla unun af því að dekra við sitt nærumhverfi og íbúðin ber þess merki því hver einasti fermetri er fallegur á heimilinu.
Upprunalega eldhúsið gullfallegt eftir yfirhalningu
,,Þetta eldhús er til að mynda upprunalegt og er um 70 ára gamalt en það kom aldrei til greina að taka það niður heldur bara að gera það eins fallegt og hægt væri. Við héldum innréttingunni en breyttum aðeins uppröðuninni á því; færðum til skápa og smíðuðum nýja skápa í sama stíl og innréttingin er í. Við settum svo marmaraplötu á eldhúsbekkina sem breytti miklu fyrir útlitið. Höldurnar eru líka upprunalegar en þær voru illa farnar og ég lét pólýhúða þær sem
bjargaði þeim, þetta lítur vel út og kostaði alls ekki mikið. Við settum svo hvítar veggflísar og völdum svört blöndunartæki á móti gamla stálvaskinum sem hefur staðið vaktina í öll þessi ár, mér finnst hann sjarmerandi,“ segir hún brosandi. Koparljós hanga yfir gamla vaskinum en þau keypti Karitas í Kaupmannahöfn þegar hún var þar í arkitektanámi.
Meiri samkeppni í Danmörku
„Ég bjó úti í örugglega 12 ár, lærði í Kaupmannahöfn og flutti svo til Svíþjóðar og síðar Árósa með kærastanum þar sem hann var í námi. Ég vann á arkitektastofum úti í Danmörku sem var mjög lærdómsríkt og krefjandi, en ég finn að það er á einhvern hátt þægilegra að vinna
hér heima, þar sem maður er meira á heimavelli. Það er líka töluvert meiri samkeppni í þessu umhverfi í Danmörku og erfiðara að komast að kannski vegna þess líka að Danir eru þekktir fyrir góða hönnun og margt hæfileikafólk kemur úr öllum áttum. En þetta var mjög lærdómsríkur og æðislegur tími.“
Karitas á mikið af fallegum hlutum og less is more á sannarlega ekki við um þetta persónulega og hlýja heimili í Hafnarfirði.
Meira af sérhæðinni við Lækinn í septemberblaði Húsa og híbýla sem er fáanlegt á sölustöðum til 20. september þegar nýtt blað kemur út.
Myndir / Hallur Karlsson