Þriðjudagur 24. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Fagurfræðilega fullkomin samsuða í 100 ára timburhúsi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Inga Elín myndlistarmaður og Þórarinn gítarleikari heimsótt.

Það eru ansi mörg ár síðan því var fyrst hvíslað að blaðakonu Húsa og híbýla að hönnuðurinn og myndlistamaðurinn Inga Elín Kristinsdóttir hefði einstaklega næmt auga fyrir fallegri hönnun og sérstakt lag á að hnjóta um heimsþekktar hönnunarperlur á nytjamörkuðum hér heima sem og erlendis. Heimili Ingu Elínar og eiginmanns hennar, Þórarins Sigurbergssonar gítarleikara og leiðsögumanns, við Laufásveginn í Reykjavík, er sannkallaður ævintýraheimur og einstaklega vel heppnað dæmi um hvernig heimili sem nostrað er við af ástúð getur fangað fullkomnlega persónuleika þeirra sem þar búa.

Hannar verðlaunagripi
Inga Elín lagði stund á myndlist við Myndlistaskóla Reykjavíkur og var aðeins tvítug farin að kenna myndlist að loknu kennaranámi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Þremur árum síðar lá leið hennar í framhaldsnám til Kaupmannahafnar í Skolen for Brugskunst (í dag Danmarks Designskole), þaðan sem hún útskrifaðist fimm árum síðar frá tveimur deildum skólans, keramík- og glerlistadeild. Inga Elín hefur verið áberandi í íslensku listalífi allar götur síðan og skipað sér sess meðal okkar fremstu listamanna. Í um áratug rak hún á Skólavörðustíg 5

09. tbl. 2018, HH1808082010, Inga Elín Kristinsdóttir, Innlit, Laufásvegur 43

sitt eigið gallerí en er í dag í hópi átta listakvenna sem samanstanda að keramíkgalleríinu Kaolín sem er til húsa á sama stað. Fyrir utan fjölmargar einkasýningar innan lands og utan hefur Inga Elín tekið þátt í ótal samsýningum víða um heim, meðal annars í Bretlandi og Skandinavíu og hlotið hinar ýmsu viðurkenningar í gegnum tíðina. Inga Elín hefur hannað ýmsa muni fyrir Kokkalandslið Íslands og allt frá árinu 2001 Ístóninn, verðlaunagrip Íslensku tónlistarverðlaunanna. Þá er borðbúnað úr hennar smiðju að finna á nokkrum af rómuðustu veitingahúsum landsins og athygli vakti á sínum tíma þegar breski glysrokkarinn og listaverkasafnarinn Elton John festi kaup á tveimur verkum hennar í frægri heimsókn til landsins árið 2007.

„Ég daðraði eitthvað við naumhyggjuna á tímabili en var fljót að finna að hún var ekki alveg minn tebolli.“

Smávinir í postulíni og steinsteypu
Líkt og margir aðrir íslenskir hönnuðir og listamenn í gegnum tíðina, hefur Inga Elín sótt sinn helsta innblástur til íslenskrar náttúru. Í verkum sínum hefur hún stundum fléttað saman ólíkum og óvæntu hráefni en gott dæmi um það er sería skúlptúrverka sem hún kallar Smávinir fagrir en þar mætast fíngert og brothætt postulínið og gróf steinsteypan. Þessi styrkleiki Ingu Elínar sem listamanns skín einstaklega vel í gegn á heimilinu.

- Auglýsing -

Eltist ekki við tískubylgjur
Dásamlega litrík kaótík einkennir heimili þeirra Ingu Elínar og Þórarins, hér sér varla í auðan blett og endalaust eitthvað áhugavert sem fangar augað. Inga Elín byrjaði að safna list og hönnun markvisst strax sem unglingur og var þá þegar búin að móta sér þann persónulega stíl sem fylgt hefur henni allar götur síðan. „Ég hef alltaf verið safnari í mér og hef í gegnum tíðina safnað málverkum, glerlist, keramíki og skúlptúrum og þá iðulega verkum íslenskra listamanna,“ segir Inga Elín þar sem hún lóðsar okkur um litríkt heimilið.

- Auglýsing -

„Ég hef alltaf leitast við að fjárfesta í góðri og vandaðri hönnun og eiga þá hluti ævina út í stað þess að elta einhverjar tímabundnar tískubylgur. Dönsk og ítölsk hönnun frá tímabilinu 1950-´70 hefur alltaf höfðað sérstaklega til mín. Ég daðraði eitthvað við naumhyggjuna á tímabili en var fljót að finna að hún var ekki alveg minn tebolli. Ég hef alltaf haft einstaklega gaman af því að fara á nytjamarkaði, meðal annars í Kaupmannahöfn og Berlín en þar eru margir góðir antíkmarkaðir og hægt að finna mikið úrval fallegra og áhugaverðra muna fyrir heimilið,“ segir Inga Elín sem er einmitt ein þeirra sem standa á bak við Portið, eina áhugaverðustu verslun landsins en þar er jafnan að finna mýgrút af sérvöldum antík- og vintage-munum, húsgögnum og fatnaði.

Fleiri myndir af þessu fallega heimili má sjá í septemberblaði Húsa og híbýla sem fæst á sölustöðum til 20. september.

Texti / Gerður Harðardóttir
Ljósmyndari / Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -