Parið Stella Björt Bergmann Gunnarsdóttir og Alexander Fannar Kristjánsson búa í skemmtilegri íbúð í Vogahverfinu. Bleiki liturinn er áberandi á heimilinu.
Þau Stella Björt Bergmann Gunnarsdóttir og Alexander Fannar Kristjánsson búa í Vogahverfinu í fallegu húsi byggðu árið 1950 ásamt tæplega sex mánaða syni sínum, honum Vésteini Flóka. Einungis eru um sjö mánuðir síðan parið flutti og er ekki annað hægt að segja en að þau séu búin að koma sér vel fyrir, en þau ákváðu að koma sér af leigumarkaðnum þegar þau vissu að fjölskyldan myndi stækka. Stella Björt starfar sem verslunarstjóri hjá Spútnik í Kringlunni og Alexander Fannar er tónlistarmaður, betur þekktur undir nafninu Black Pox.
Skipulag hússins og hverfið heillaði
Íbúðin er á tveimur hæðum og á þeirri efri eru tvær bjartar stofur, ásamt eldhúsi og vinnuaðstöðu Alexanders og neðri hæðin geymir svefnherbergi, bað og þvottahús.
Hvernig líkar ykkur hér í Vogahverfinu? „Þetta er mjög næs hverfi en ég ólst upp hérna og bjó í tuttugu ár, hér er rosalega rólegt en á sama tíma er þetta hverfi mjög miðsvæðis,“ svarar Stella.
Hvað heillaði við þetta hús? „Við erum mjög hrifin af hverfinu og þessum smáatriðum í íbúðinni, skrautlistunum og rósettunum. Svo er rosalega þægilegt að vera á tveimur hæðum og hafa svefnherbergin og baðherbergið niðri, en hann Vésteinn er svolítið svefnstyggur svo það er snilld að geta verið uppi á kvöldin og þurfa ekki að hvísla.“
Bleikur í uppáhaldi
Hvernig stíl eruð þið með? „Við Alex erum rosalega ólík þegar kemur að stíl heimilisins, þetta er búið að vera mjög langt ferli að ná góðum millivegi hvað varðar stílinn hér heima. Axel vill hafa allt frekar einfalt og meira út í industrial- stíl, meðan ég er alveg í hina áttina.“ Stella segir bleika velúrsófann úr ILVU vera í miklu uppáhaldi en þau festu kaup á honum nýlega. „Mig hefur langað í bleikan sófa alveg síðan ég var 10 ára og loksins hefur sá draumur ræst!“ Þau segjast afar lítið snobbuð hvað varðar val á húsgögnum og kaupa bara hluti inn á heimilið sem þeim þykir fallegir og er nokkurn veginn sama hvaðan þeir koma.
„Mig hefur langað í bleikan sófa alveg síðan ég var 10 ára og loksins hefur sá draumur ræst!“
Aðspurð um hvaða hönnuður sé í uppáhaldi nefnir Stella fatahönnuðinn Hildi Yeoman en hún segist þó duglegust að kaupa vintage-föt og sé mjög hrifin af endurnýtingu.
Safnið þið einhverju? „Já, bleikum hlutum,“ segir Stella og hlær, „annars söfnum við minjagripum úr ferðalögum og stillum þeim upp á hillu hér niðri, en við elskum að ferðast.“ Við kveðjum unga parið í Vogunum að sinni og þökkum þeim fyrir kaffið og heimboðið.
Texti / Elín Bríta
Myndir / Hallur Karlsson