Lögregla handtók karl í fjallkonubúningi sem truflaði hátíðarhöld á Austurvelli.
Maðurinn hafði komið sér fyrir á svölum Pósthússtrætis 13 og flutti þar ræðu í heldur óvenjulegum fjallkonubúningi; með ljósa hárkollu á höfði, gyllt sundgleraugu og í gylltum bíkinitoppi, buxum og skikkkju. Þar mun hafa verið á ferð listamaðurinn Snorri Ásmundsson sem greindi fyrr í vikunni á Facebook frá þeirri fyrirætlan sinni að ætla að halda erindi um náttúruvernd, kynþáttasamruna og kórónuveirupælingar í gervi Fjallkonunnar, fyrstur karla.
Gestir og gangandi tóku vel í gjörning Snorra, en lögreglu leist hins vegar ekki á blikuna og handtók listamanninn sem hefur birt mynd og myndbrot frá uppákomunni á Facebook-síðu sinni. Þess má geta að Snorri er reyndar ekki fyrsti karlinn sem klæðist fjallkonubúningi á 17. júní því árið 2018 brá dragdrottningin vinsæla Gógó Starr, eða Sigurður Heimir Guðjónsson, sér í hlutverk hennar með eftirminnilegum hætti og sagðist lengið hafa dreymt um að fá að leika fjallkonu.