Í tilefni af sumarsólstöðum var blásið til útiveislu á Laugaveginum síðastliðinn laugardag. Veislan þótti heppnast afar vel og sýna og sanna að Laugavegurinn iðar af lífi þegar lokað er fyrir bílaumferð.
Veitingastaðirnir sem komu að framtakinu voru Vínstúkan tíu sopar, Sumac og Puplic house. Sett var upp hvítdúkað langborð eftir endilöngum Laugaveginum og fólk naut matar og drykkjar í veðurblíðunni.
Veislan var haldin á sama tíma og nokkrir kaupmenn á Laugarveginum standa í mótmælum gegn göngugötum í miðbænum. Þá nýttu margir þeirra sem vilja hafa lokað á bílaumferð á sumrin tækifærið og tjáðu sig um útiveisluna á Laugarvegi á samfélagsmiðlum og bentu á að þetta sé sú stemning sem eigi að einkenna miðbæinn á sumrin.
Veðrið punkturinn yfir i-ið
Ólafur Örn Ólafsson, einn eigenda Vínstúkunnar Tíu sopar, sem stóð að viðburðinum, sagði frá því í síðustu viku í samtali við Mannlíf að miðbær Reykjavíkur iðaði af lífi. Hann sagðist vera orðinn þreyttur á neikvæðri umræðu um miðbæinn.
Aðspurður hvernig útiveislan á laugardaginn hafi heppnast segir hann: „Þetta var algerlega frábær dagur, margt fólk sem kom þarna í gegn og allir glaðir og kátir og ekki skemmdi veðrið fyrir.“
Sjá einnig: Orðinn þreyttur á að fólk tali miðbæinn niður – „Þetta er svo mikil vitleysa“