Reykjavíkurborg eyðir milljónum á ári í að hreinsa tyggjóklessur af götum og gangstéttum borgarinnar. Það sem af er ári er kostnaðurinn kominn upp í 5,5 milljónir.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá borginni þar sem sagt er frá því að búið er að setja upp skilti á nokkrum stöðum í miðborginni til að minna fólk á að henda tyggjóinu sínu í ruslið.
Árið 2018 var kostnaðurinn 5,2 milljónir króna, árið 2019 nam kostnaðurinn 8,5 milljónum króna og það sem af er ári er búið að eyða 5,5 milljónum króna í að hreinsa tyggjóklessur.
Í tilkynningu Reykjavíkurborgar segir að það sé mikil vinna og kostnaðarsamt að hreinsa tyggjóklessur af götunum. Sérstakan búnað þarf í verkið og það þarf að fara tvær umferðir yfir hvert svæði til að ná klessunum alveg upp.
Alls eru 1.520 ruslatunnur í borginni; 674 í austurborginni og 846 í vesturborginni. Hér er hægt að skoða staðsetningu þeirra í Reykjavík.