Vilmundur Hansen garðyrkjufræðingur fræðir lesendur um nokkrar ætar plöntur.
„Skjaldflétta er klifurblóm sem skartar appelsínugulum blómum, hún er gríðarlega mikið notuð víða um heim. Fræbelgirnir eru vel ætir og blómin eru góð í salöt. Af blómunum er milt sýrubragð, ekki ólíkt bragði af karsa. Hún er til dæmis notuð sem lækningarurt í Suður-Ameríku.
Morgunfrú er mikið notuð í Asíu. Krónublöðin af henni eru nýtt í pottrétti og þykja góð með hrísgrjónum og salati. Ég var einu sinni í Japan og fór í matvöruverslun að gamni mínu og þar voru blóm af morgunfrúm tilbúin í pakkingum innan um grænmetið og allir þekktu hana vel sem matplöntu.
Dúkablóm eða flauelsblóm eru lítil appelsínugul blóm og líta svipað út og skjaldflétta. Þau hafa piparkeim álíkan og morgunfrúr og vel má borða þau.
Begóníur sem margir þekkja og eru stundum kallaðar ömmublómið, eru bæði til sem sumarblóm og inniblóm. Blöðin af þeim eru mikið notuð í Mexíkó, Japan og Indlandi. Þau bragðast eins og bitrar hundasúrur. Þær vaxa villt í þessum löndum. Þau eru til dæmis notuð sem krydd í ýmsar kjötsósur, fiskrétti og salöt. Hnúðarnir eða rótin eru líka borðuð en hún hefur einnig verið notuð til lækninga í gegnum aldirnar.
Ýmsar tegundir af brám eru þurrkaðar í Asíu og notaðar í te, pottrétti og ýmislegt annað. Við þekkjum vel til baldursbrár sem ber hvít blóm og myndar einskonar blómakörfu með eitt gult auga í miðjunni. Hún vex villt víða um land.
Önnur garðplanta sem vex villt hér á landi er burnirót. Hana má skera niður og nota sem spínat, eða súrsa hana.
Einir er garðplanta sem vex villt á Íslandi. Unnið er bragðefni úr berjunum sem er undirstaðan í gini og séniver. Líka hægt að þurrka þau og nota sem krydd.
Hafþyrnir er garðplanta sem gefur af sér góð appelsínugul ber sem hægt er að nota eins og önnur ber.
Laufin af hortensíum eru þurrkuð og notuð í te.
Kornblóm eru víða notuð í salöt, eggjakökur og fleira.
Skessujurt er uppáhaldsjurtin mín. Hún er frábær sem krydd á lambakjötið. Hún vex í flestum görðum hér á landi. Hentar líka vel í súpur og salöt í litlu magni.
Sýrena er fjólublá garðplanta. Gott er að hræra blómunum saman við sýrðan rjóma og bragðbæta með sítrónusafa, þá verður til afbragðsídýfa.
Það má borða krónublöðin af túlípönum. Afbragð í kjúklinga- og grænmetisrétti og rækjusalöt.
Allir þekkja fræ sólblómsins, sólblómafræ, en færri vita að krónublöðin og blómvísar jurtarinnar eru einnig ætir og gefa svipað bragð og fræin en mildara.“
Umsjón / Bergþóra Jónsdóttir