Eftir Lindu Björg Árnadóttur
Það er töluvert síðan ég áttaði mig á því að fegurðariðnaðurinn eins og hann leggur sig er afleiðing valdaleysis kvenna. Það að konur séu að reyna sífellt að leggja sig fram um að líta vel út og vera unglegar þýðir einfaldlega að þær eru eftir fremstu getu að gernýta þau litlu völd sem þær hafa haft í samfélaginu.
Einu sinni las ég bók sem var um líf kvenna sem voru fangar í útrýmingarbúðum nasista. Á hverjum degi voru vannærðar konurnar í fangabúðunum látnar raða sér upp og úr hópnum voru valdar þær veikburðustu og þær teknar af lífi á staðnum. Konurnar fóru auðvitað að reyna að bjarga sér og bæta stöðu sína en það gerðu þær með því að skera sig til blóðs og nudda blóði í vangana til þess að sýnast hraustlegri svo þær yrðu ekki valdar út þann daginn. Það var á þessu augnabliki sem að ég skildi hvers vegna konur eru að eyða öllum þessum tíma og peningum í að mála sig. Þær eru einfaldlega að reyna að komast af.
Ef að við lítum á tísku og hvað það er sem við erum að miðla með henni fyrir utan kyn og kynhneigð þá er það að sýna stöðu annars vegar og sköpunargáfu hins vegar. Ég tel að þetta tvennt séu andstæðir pólar.
Það er auðvelt að skilja þetta ef við yfirfærum það á förðun. Það er tvennt sem við getum gert með förðun. Annars vegar að „feika“ fegurð og heilbrigði, eins og konurnar í útrýmingarbúðunum en þá erum við að miðla stöðu eða við getum verið skapandi og gert eitthvað frumlegt, framsækið og skemmtilegt. Svo er auðvitað hægt að vera þarna á milli og gera hvorutveggja í mismunandi hlutföllum.
Ef samfélagið sem við lifum í væri öruggara og jafnara þá þyrftum við ekki stanslaust að miðla stöðu hvort sem það er með förðun, Louis Vuitton-tösku, Omaggio-vasa eða öðru. Við gætum einbeitt okkur að því að vera skapandi þegar kemur að tísku. Við gætum leyft okkur að taka áhættu, búa til innihald og skemmta okkur með því að þróa okkar klæðnað og sjálfsmynd.
Ég las nýlega texta þar sem var verið að lýsa lífi fólks sem var innflytjendur frá Karíbahafinu í Bretlandi eftir seinna stríð. Þetta var fólk sem hafði ekki sömu réttindi og innfæddir og gat til dæmis ekki farið á bari eða veitingastaði vegna litarháttar síns. Það var samt alltaf partí hjá þessu fólki og mikil tísku- og tónlistarmenning. Það var algerlega tilgangslaust fyrir það að sýna einhverja stöðu með sinni tísku því það hafði enga. Þess vegna var það skapandi og allir bjuggu til fötin sín sjálfir. Og það var ekki vegna þess að þau höfðu ekki efni á því að kaupa tilbúin föt heldur vegna þess að þau voru í samkeppni um að vera skapandi og þau bara máttu ekki vera að því að bíða eftir að verslanir kæmu með einhverjar nýjungar. Það voru einfaldlega búin til ný föt fyrir hverja helgi. Gleðin og innihaldið í lífi þessa fólk var í sköpuninni sem var möguleg vegna þess frelsis sem fékkst með því að vera með enga stöðu.
Ég vil sjá fyrir mér framtíð þar sem að við getum leyft okkur að vera fyrst og fremst skapandi. Ég held að ef við settum meiri orku í sköpun þá væri samfélagið okkar miklu heilbrigðara og fallegra og okkur liði miklu betur. En það er erfitt í samfélagi ójöfnuðar.
Höfundur er hönnuður og lektor við Listaháskóla Íslands
Viltu birta pistil á man.is? Sendu okkur línu.