Mögulegar breytingar á húsinu sem brann við Bræðraborgarstíg þann 25. júní kunna að hafa haft slæm áhrif á brunavarnir hússins. Þetta kemur fram í máli yfirmanns brunaeftirlits hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) sem rætt er við í Morgunblaðinu í dag.
„Við fyrstu skoðun lítur út fyrir að gerðar hafi verið breytingar á mannvirkinu sem ekki hafi verið sótt um byggingarleyfi fyrir. Mögulega hafa þessar breytingar haft slæm áhrif á brunavarnir,“ segir Davíð Snorrason, yfirmaður brunaeftirlits hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS), í samtali við Morgunblaðið.
Eins og Mannlíf greindi frá á sínum tíma barst tilkynninng um eldinn klukkan 15.15 þann 25. júní og hélt fjölmennt lið viðbragðsaðila þegar á staðinn, en aðstæður á vettvangi voru mjög erfiðar. Tók slökkvistarf töluverðan tíma, en mikinn reyk lagði frá húsinu og voru íbúar í nágrenninu beðnir um að loka hjá sér gluggum. Þrír létu lífið í eldsvoðanum og tveir slösuðust alvarlega.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun vinnur nú að því að rannsaka brunann, en niðurstöður hennar gætu legið fyrir síðar á þesus ári. Markmið hennar er meðal annars að athuga hvort breyta þurfi regluverki en grunur leikur á því brunavörnum í húsinu hafi verið ábótavant.
Fjölmiðlar höfðu áður fjallað um slæman aðbúnaði í húsinu en í Morgunblaðinu kemur fram að stofnuninni höfðu ekki borist kvartanir vegna hússins.