Kristjón Kormákur Guðjónsson hefur sagt skilið við heim fjölmiðla. Kristjón, sem hefur verið í veikindaleyfi í tæpa tvo mánuði, greinir frá því færslu á Facebook að honum hafi verið sagt upp störfum sem ritstjóri frettabladid.is.
„Ég átti að snúa aftur til starfa um miðjan júlí en af því verður ekki. Staða mín hefur verið lögð niður,“ skrifar Kristjón Kormákur á Facebook. „Mun ég ekki snúa aftur á Fréttablaðið eftir að mér var sagt upp störfum í síðustu viku. Mér var tjáð að mitt starf hefði verið lagt niður og ráðinn verður sérfræðingur í samskiptamiðlum. Jón Þórisson ber nú ábyrgð á bæði neti og blaði sem aðalritstjóri.“
Kristjón tók við starfi ritstjóra frettabladid.is í febrúar síðastliðnum eftir skipulagsbreytingar og ritstýrði bæði vef Fréttablaðsins og Hringbrautar. Hann tók við starfi ritstjóra vefs Hringbrautar í apríl á síðasta ári eftir að starfað sem aðalritstjóri DV í rúmt ár og hóf störf á Fréttablaðinu í nóvember í fyrra. Í fyrrnefndri færslu segist hann fyrir hálfgerða tilviljun hafa villst inn í þennan bransa og orðið ástfanginn af faginu á fyrsta degi. Þetta sé í fyrsta sinn frá árinu 2012 sem hann er atvinnulaus í faginu.
„Eftir því sem árin liðu, til að takast á við álagið, slökkva á hausnum á mér, drakk ég og slíkur flótti eykur aðeins á vanlíðan.“
„Ég hef notið þeirra gæfu að fá tækifæri til að stýra fjórum fjölmiðlum á átta árum. Það sem stendur upp úr er fólkið sem ég hef kynnst. Ég hef notið þess að kenna fólki og sjá það blómstra í starfi.“
Ræðir opinskátt veikindaleyfið
Þá ræðir Kristjón á opinskáan hátt ástæður þess að hann þurfti að fara í veikindaleyfi. „Eins og margir vita sem þekkja mig á ég það til að keyra mig út í vinnu. Í raun má segja að ég hafi gert það frá árinu 2012, unnið frá morgni til kvölds. Það flýtti fyrir frama mínum en bitnaði á þeim sem standa mér næst og á heilsu minni. Eftir því sem árin liðu, til að takast á við álagið, slökkva á hausnum á mér, drakk ég og slíkur flótti eykur aðeins á vanlíðan.“
Hann viðurkennir að eftir á að hyggja hefði hann átt að fara í veikindaleyfi á síðasta ári. „Ég lét loks verða að því fyrir um tveimur mánuðum. Læknirinn minn skipaði mér í frí. Sagði ég væri í kulnun. Ég væri að skemma nýrnahettur með stöðugri adrenalín-framleiðslu og við þessar aðstæður fer líkaminn að ganga á sjálfan sig, heilinn skreppur t.d. saman. Ég varð að taka hvíld áður en afleiðingarnar yrðu óafturkræfar. Þetta var orðið spurning um að glíma við heilsubrest það sem eftir væri af þessu lífi.“
Hætti að drekka og hefur aldrei liðið betur
Tímann undandarið segist Kristjón hafa notað til að rækta samband við börnin sín og fjölskyldu. „Ég ákvað að leggja áfengi alfarið á hilluna á meðan þessu bataferli stæði, hugsa um sjálfan mig, leita inná við, fara í slökun og íhugun, vera í náttúrunni, ganga á fjöll og ferðast um landið. Læra að fljúga!“ Staðan í dag sé sú að hann hafi ekki verið í eins góðu formi frá því hann hóf störf í fjölmiðlum. „Mér hefur aldrei liðið betur. Ég er samt ekki kominn á áfangastað. Ég ætla að styrkja mig og efla enn frekar enda veikindafríi ekki lokið.“
„Mér hefur aldrei liðið betur. Ég er samt ekki kominn á áfangastað.“
Hann kveður að eigin sögn Féttablaðið kátur og bjartsýnn. Það eina sem honum finnist erfitt við brotthvarf af þeim miðli er að hafa ekki tekist eins og hann hefði viljað að miðla af reynslu sinni til þeirra ungu en frábæru blaðamanna sem starfa á miðlinum og eiga eftir að láta mikið á sér kveða í bransanum. Fyrir því sé ýmsar ástæður sem hann geti ekki á þessum tímapunkti rakið nánir og ætli ekki kryfja að sinni. Það geri hann síðar, við betra tækifæri.
Margt spennandi í pípunum
Í haust stefnir hann á bókaskrif með syni mínum. „Mér standa ótal dyr opnar. Það er margt spennandi í pípunum og endalausir möguleikar handan við hornið. Hvar ég sting niður fæti næst kemur í ljós síðar. Lífið er fallegt. Tilfinningin að vera frjáls verður ekki lýst í orðum,“ skrifar hann.