Bókaútgefandi segir að ótrúlegt að samkeppniseftirlitið skuli hafa samþykkt sölu Máls og menningar á 70 prósenta hlut í bókaútgáfunni Forlaginu til sænska hljóðbókarisans Storytel.
Fjölmiðlar greindu frá því í gær að Storytel AB, móðurfélag Storytel á Íslandi, hefur keypt stóran hlut, eða 70 prósent, í Forlaginu, en Seljandinn, bókmenntafélagið Mál og Menning, mun áfram fara með 30 prósenta hlut í félaginu sem mun starfa áfram sem sjálfstætt bókaforlag, aðskilið frá streymisveitu Storytel á Íslandi.
Í Fréttablaðinu í dag er rætt við bókaútgefendur vegna málsins og segir einn, sem ekki vill koma fram undir nafni, að útgefendur séu áhyggjufullir, því með kaupunum séu tveir stærstu útgefendur bóka á Íslandi að sameinast, þar sem Storytel teljist útgefandi auk þess að vera endursöluaðili. Honum finnst ótrúlegt að samkeppniseftirlitið skuli hafa samþykkt kaupin.
Annar útgefandi, Jónas Sigurgeirsson hjá Bókafélaginu, sem rætt er við, segir kaupin breyta litlu til skemmri tíma. „En er auðvitað tímanna tákn því það hefur verið mikil aukning í útgáfu hljóðbóka,“ bendir hann á.
Með kaupunum er Forlagið komið í hóp í þriggja annarra norrænna útgáfufélaga í eigu Storytel AB. Hin félögin eru Norstedts Förlagsgrupp í Svíþjóð, People’s Press í Danmörku og Gummerus Publishers í Finnlandi.