Lögreglan á Suðurnesjum hefur kært tuttugu ökumenn fyrir of hraðan akstur á síðustu dögum. Einn þeirra framvísaði ökuskírteini sem reyndist vera falsað og er hann ekki með gild ökuréttindi. Hann var því, auk aksturs bifreiðar án réttinda og hraðakstursins, kærður fyrir skjalafals. Annar ók réttindalaus og þriðji ók á fjórum negldum hjólbörðum. Hans bíður því 160 þúsunda króna sektargreiðsla fyrir brotin.
Auk ofangreindra voru höfð afskipti af nokkrum ökumönnum sem óku réttindalausir. Einn þeirra ók undir áhrifum fíkniefna, að því er sýnatökur á lögreglustöð sýndu, og hann var einnig með amfetamín í vörslum sínum.