Framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs Icelandair segir að mistök hafi verið gerð hjá Icelandair þegar rannsóknarnefnd samgönguslysa var ekki strax tilkynnt um alvarlegt flugatvik á Keflavíkurflugvelli í október 2016.
„Við tilkynntum þetta of seint,“ segir Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs Icelandair í samtali við Morgunblaðið í dag og vísar þar til umrædds atviks þegar minnstu munaði, eða aðeins nokkrum sekúndum, að stórslys yrði þegar flugmaður farþeguþotu Icelandir lækkaði flugið of hratt stuttu fyrir lendingu í Keflavík. Viðvörunarkerfi vélarinnar fór í gang og varð til þess að flugmaðurinn hætti við aðflug, sem kom í veg fyrir að vélin skylli í jörðina, eins og segir í greininni. Alls voru um 113 manns um borð.
Fyrsta tilkynning um atvikið barst ekki fyrr en næsta morgun og segir í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa að af þeim sökum hafi ekki verið hægt að tryggja hljóðupptökur hljóðrita vélarinnar af því. Þetta hafi sett strik í reikninginn þegar atvikið var rannsakað.
Í samtali við Morgunblaðið ber Jens við að verklagsreglur Icelandair um að verklagsreglur fyrirtækisins varðandi alvarleg atvik af þessu tagi hafi ekki verið nægilega skýr. Nú sé búið að skerpa á þeim og brýnt hafi verið fyrir starfsfólki að tilkynna svona alvarleg atvik undireins.
Í grein Morgunblaðsins er ennfremur athygli vakin á því að ekki er um einangrað tilvik að ræða og er rifjað upp alvarlegt atvik flugvélar á Gardermoen-velli í Noregi árið 2002. Bent er á að þá hafi engin tilkynning borist frá Icelandair heldur hafi vélin flogið til Stokkhólms og því næst til Keflavíkur. Þá fyrst hafi yfirvöldum hérlendis verið tilkynnt um atvikið.