Bandaríska alríkislögreglan, FBI, handtók Ghislaine Maxwell, samstarfskonu og fyrrverandi kærustu auðkýfingsins Jeffrey Epsteins á fimmtudaginn. Hún er grunuð um aðild að brotum Epsteins sem er sakaður um mansal og kynferðislega misnotkun.
En hver er Ghislaine Maxwell, konan sem hefur verið kölluð hægri hönd Jeffrey Epsteins?
-Maxwell er dóttir fjölmiðlajöfursins Robert Maxwell. Hann lést árið 1991.
-Ghislaine Maxwell er 58 ára, fædd í Frakklandi og uppalin á Englandi.
-Maxwell flutti frá Englandi til New York á tíunda áratugnum og vann sem fasteignasali. Það var þá sem hún kynntist Epstein.
-Maxwell og Epstein voru par á sínum tíma og síðan góðir vinir. Epstein sagði Maxwell vera sinn besta vin í viðtali við Vanity Fair árið 2003.
-Maxwell hefur látið lítið fyrir sér fara síðan brot Epstein hafa komist á yfirborðið. Breska blaðið The Sun bauð í nóvember í fyrra 10.000 pund fyrir þann sem gæti gefið upp hvar Maxwell væri niðurkomin.
-Hún hefur alltaf haldið því fram að hún hafi ekki haft vitneskju um kynferðisbrot Epsteins og höfðaði mál gegn dánarbúi hans í mars þar sem hún krafðist bóta vegna lögfræðikostnaðar og kostnaðar fyrir öryggisgæslu sem hún hefur þurft að greiða í tengslum við rannsókn á máli Epsteins.
Mun loksins gjalda fyrir gjörðir sínar
Saksóknarinn Audrey Strauss lýsti meintum brotum Maxwell á blaðamannafundi á fimmtudaginn.
„Maxwell var meðal nánustu félaga hans og hjálpaði honum að misnota stúlkur,” sagði Strauss á fundinum. Hún segir Maxwell hafa aðstoðað Epstein að lokka stelpur allt niður í 14 ára inn á heimili hans þar sem þær voru kynferðislega misnotaðar af honum eða vinum hans og kunningjum.
Strauss segir Maxwell hafa spilað stórt hlutverk í að finna, vingast við og tala þolendur Epsteins til áður en þær voru misnotaðar kynferðislega. Meint brot munu hafa farið fram frá árinu 1994 til ársins 1997.
Strauss segir Maxwell hafa hvatt stúlkurnar til að þiggja ýmis tilboð frá Epstein, t.d. þegar hann bauðst til að hjálpa þeim fjárhagslega. Þessi aðferð Maxwell og Epsteins snerist um að láta stúlkunum líða eins og þær stæðu í þakkarskuld við auðkýfinginn að sögn Strauss.
Strauss segir hlutverk Maxwell hafa fyrst og fremst verið að hughreysta stúlkurnar og telja þeim trú um að þær ættu að gera það sem Epstein bað þær um að gera.
Hún segir að nú loksins muni Maxwell þurfa að gjalda fyrir gjörðir sínar.
Sjá einnig: Ghislaine Maxwell handtekin af FBI