Fjöldi Íslendinga glímir við viðvarandi slappleika og orkuleysi eftir að hafa smitast af kórónuveirunni, að því er fram kemur í Fréttablaðinu.
Í frétt á vef Fréttablaðsins er fjallað um málið og vísað í umræður í Facebook-grúpunni Við fengum Covid þar sem notendur kvarta meðal annars undan brengluðu bragð og / eða lyktarskyni og fyrrnefndum einkennum í kjölfar þess að hafa smitast af COVID-19.
Talsmaður Heilsugæslunnar í Reykjavík segir dæmi um að fólk glími við þessi langvinnu einkenni jafnvel mánuðum eftir að það smitaðist og náði bata. Einnig er rætt við Runólf Pálsson, forstöðumann á lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu Landspítalans, sem segir ljóst að mikið af fólki þjáist enn af eftirköstum sjúkdómsins, þótt margir nái skjótum bata.
Í fréttinni er bent á að engin þekkt úrræði séu enn í boði sem geta stytt ferlið sem fylgir langvarandi einkennum, en langtíma afleiðingar faraldursins séu til rannsóknar á Landspítalanum.