Már Gunnarsson tónlistarmaður og sundkappi lenti í því að myndband sem var tekið af honum í leyfisleysi var sett á Netið.
„Sem betur fer er þetta ekki myndband af mér að gera eitthvað asnalegt, en þarna er verið að fara á bakvið mig og hæðast að mínu sjónleysi,“ segir Már Gunnarsson, tónlistarmaður og sundkappi, sem varð fyrir því að myndband sem var tekið af honum í laumi var sett á samfélagsmiðla í gær.
Már vakti athygli á málinu á Facebook þar sem hann kom á framfæri þakklæti til þeirra sem höfðu samband og létu hann vita af myndbandinu. Bæði þar og í samtali við Mannlíf segist Már hafa talið sig vera í félagsskap sem hann gæti treyst. Annað hafi heldur betur komið á daginn.
„Þarna er auðvitað verið að hæðast að því hvað ég sé illa. Þetta er bara vanvirðing og aumingjaskapur.“
„Um daginn var ég í bílferð með fólki sem ég þekki og einn aðilinn biður mig um að syngja. Viðkomandi sagði meira að segja að hann væri ekki að taka mig upp og í myndbandinu heyrist hann segja: Við myndum aldrei taka þig upp. Þannig að ég syng fyrir þau, í þeirri trú, og næsta sem ég veit er að þetta birtist á Netinu. Ég er ekki að gera neitt asanlegt, en þetta er gert í algjöru leyfisleysi og þarna er auðvitað verið að hæðast að því hvað ég sé illa. Þetta er bara vanvirðing og aumingjaskapur,“ segir Már, sem er mikið niðri fyrir vegna málsins.
Myndbandið hefur nú verið fjarlægt af Netinu en fékk yfir 15.000 áhorf á meðan það var uppi. Már segist vera þakklátur þeim sem bentu honum á myndbandið en kveðst skiljanlega vera ósáttur. Hann viti hverjir hafi staðið fyrir birtingunni en hyggst ekki ætla að kæra málið.