Skoðun
Eftir / Pál Steingrímsson
Ólafur Örn Jónsson, fyrrverandi skipstjóri, virðist vera með þráhyggju gagnvart Samherja hf., eigendum fyrirtækisins og starfsmönnum. Í ljósi þess að Mannlíf hefur ákveðið að gera sér mat úr níðskrifum Ólafs á Facebook finn ég mig knúinn til að árétta nokkur atriði þar sem eigendur Samherja hf. virðast ekki ætla að grípa til varna sjálfir.
Hinn 1. júlí síðastliðinn birti Mannlíf „frétt“ undir fyrirsögninni Rekinn í þrígang fyrir andstöðu við kvótann. Umrædd skrif eru byggð á færslu sem Ólafur birti á Facebook. Ólafur virðist kenna Þorsteini Má Baldvinssyni og Samherja um þær ógöngur sem hann lenti í sem skipstjóri og talar um „afkomuofbeldi“ í því sambandi. Vandamálið við þessi skrif Ólafs er að þau vandræði sem hann lenti í, sem skipstjóri og annars staðar í atvinnulífinu, verða eingöngu rakin til hans sjálfs og þeirra ákvarðana sem hann tók á sínum tíma. Vandamálið er að Ólafur hefur aldrei verið tilbúinn að líta í eigin barm.
Ólafur var skipstjóri hjá Granda. Honum var sagt upp störfum hjá Granda sumarið 1996 eftir að hafa óhlýðnast fyrirmælum stjórnenda fyrirtækisins. Ólafur fékk þau fyrirmæli að veiða ekki ufsa þar sem ekki hafði tekist að útvega aflaheimildir fyrir skipið sem hann var skipstjóri á. Ólafur lét þessi fyrirmæli sem vind um eyru þjóta, sneri til baka úr túr með fullfermi af ufsa, enda mikill fiskimaður, og var sagt upp störfum í kjölfarið. Seinna bjó Ólafur til þá sögu að skoðanir hans á kvótakerfinu hafi haft eitthvað brottreksturinn að gera og þar hafi stjórnandi í öðru fyrirtæki átt hlut að máli.
Ólafur réð sig til starfa hjá Hampiðjunni árið 1997 og hóf afskipti af stjórnmálum um svipað leyti. Honum var síðan sagt upp störfum hjá Hampiðjunni að öllum líkindum vegna þess að það fór ekki saman að vera mjög virkur í stjórnmálum og áberandi í fjölmiðlum samhliða sölustarfi í viðskiptalífinu. Kannski gæti persónuleiki Ólafs skipt hér meira máli en hann er, eftir því sem mér skilst, ekki beint auðveldur í samstarfi. Þeir sem unnu með honum hjá Hampiðjunni hafa sagt mér að hann hafi verið mjög stífur og æstur í samskiptum, sérstaklega eftir heilsubrest sem hann hafði glímt við.
Ólafur réð sig síðan til starfa sem skipstjóra hjá Sjólaskipum en var sagt upp störfum á árinu 2007. Tvennum sögum fer af því hvort ástæða uppsagnarinnar hafi verið sú að upp komst um um samstarf hans við Sigurbjörn Svavarsson og Gunnar Sæmundsson og áform þeirra um útgerð á risatogara við Máritaníu, eða hvort ástæðan hafi verið samskiptaerfiðleikar. Mér skilst að hin raunverulega ástæða brottrekstrarins hafi verið trúnaðarbrestur enda hafði Ólafur leynt áðurnefndu samstarfi fyrir stjórnendum Sjólaskipa.
Eftir því sem ég kemst næst kom Þorsteinn Már Baldvinsson ekki nálægt neinu framangreindra mála. Enda er algjörlega óljóst hvaða hagsmuni hann hefði af því að hafa atvinnu af Ólafi Erni Jónssyni. Þorsteinn Már hefur nóg á sinni könnu og býsna langsótt að hann sé að skipta sér af rekstri annarra óskyldra fyrirtækja. Meint andstaða Þorsteins Más og „afkomuofbeldi“ virðist því ekki vera neitt annað en hugarburður Ólafs Arnar Jónssonar.
Við Ólafur þekkjumst ágætlega og hann á örugglega eftir að hjóla í mig fyrir þennan pistil. Ég mun taka því eins og öðru en ég gat bara ekki orða bundist yfir skrifum Ólafs. Mér finnst dálítið dapurlegt þegar menn geta ekki horfst í augu við sjálfan sig á heiðarlegan hátt og reynt að draga lærdóm af reynslu sinni. Það á jafnframt lítið skylt við karlmennsku að kenna öðrum um ófarir sínar, líkt og Ólafur gerði. Hann gæti gert eitthvað uppbyggilegt við líf sitt ef hann væri ekki fastur í hjólförum fortíðar og ef hann myndi axla ábyrgð á mistökum sínum og reyna að læra af þeim. Því Ólafur er hæfileikaríkur maður, var afladrjúgur skipstjóri á sínum tíma og er góður drengur inn við beinið.