Eitt og annað kom til kasta lögreglu í gær. Þar á meðal fjórar líkamsárásir.
Í tveimur árásunum var eggvopni beitt. Fyrst í gærkvöldi þegar karlmaður með eggvopni réðist á annan mann á Ingólfstorgi og veitti honum áverka á hálsi. Var árásarmaðurinnn horfinn af vettvangi þegar lögregla mætti á svæðið. Sá sem varð fyrir árásinni var fluttur á bráðamóttöku. Þá réðist karlmaður vopnaður eggvopni á konu í Austurbænum á fimmta tímanum í nótt. Var hann handtekinn og vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.
Lögreglu bárust tilkynningar um tvær aðrar líkamsárásir. Ráðist var á ungar stúlkur við Barónsstíg skömmu eftir miðnætti. Árásarmennirnir, tveir piltar og stúlka, voru farin af vettvangi þegar lögreglu bar að garði. Forráðamönnum og Barnavernd var tilkynnt um málið. Ekki voru skráðir áverkar á stúlkunum.
Þá var ráðist á ungmenni í Árbænum á fjórða tímanum í nótt. Árásamaðurinn var farinn þegar lögregla mætti. Ekki eru skráðir áverkar á börnunum. Voru Barnavernd og forráðamenn látin vita.
Lögregla hefur öll málin til rannsóknar, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.