„Þá var hann kallaður nasisti, og honum var sagt að hann yrði sendur heim í líkkistu í sitt ógeðslega móðurland,“ segir Guðmunda Þorsteinsdóttir í samtali við Mannlíf. Í færslu sem Guðmunda birti á Facebook í dag má sjá skjáskot sem sonur hennar hefur fengið send og myndband af líkamsárás gegn honum sem tekið var upp á síðasta ári. Líkamsárásin átti sér stað við kirkjuna í Grindavík. (Uppfært kl. 19.40, myndbandið í færslu Guðmundu er ekki af syni hennar, heldur dreng sem var í fóstri hjá henni síðasta haust).
Sonur hennar sem var að klára níunda bekk núna í vor, hefur ítrekað orðið fyrir einelti af hálfu bekkjarsystkina sinna, og jafnvel unglinga annars staðar frá, og hefur eineltið stigmagnast í líkamlegt ofbeldi. Að sögn Guðmundu byrjaði eineltið strax við flutning þeirra heim. Guðmunda er fædd og uppalin í Grindavík. Eftir 16 ára búsetu í Þýskalandi flutti hún aftur í heimabæ sinn árið 2016, með börn hennar sem fædd eru í Þýskalandi og eiga þýskan föður.
„Ég verð að bjarga syni mínum frá þessu,“ segir Guðmunda í samtali við Mannlíf. Fjölskyldan er að flytja úr Grindavík, og þó að eineltið í garð sonar hennar sé ekki eina ástæða flutninganna, þá á það stóran þátt í þeim. „Ég er sveitamanneskja og hef alltaf búið í sveit, ég var ein af þeim sem missti vinnuna núna í Bláa lóninu og við ætlum að flytja og búa okkur betra líf.“
„Sonur minn er félagslyndur og á góða vini í Grindavík, sem hafa staðið með honum alla tíð. En það er annar hópur unglinga sem hefur lagt hann í einelti frá því að við fluttum heim.“
Guðmunda segir að í öll skipti hafi hún rætt við foreldra viðkomandi barna, talað hafi verið við skólastjóra grunnskólans í einhverjum tilvikum, barnavernd bæjarins og barsmíðar verið kærðar til lögreglu.
„Sonur minn fór að koma heim úr skólanum einn og einn dag með blóðnasir og gerði lítið úr þessu alltaf. Síðan var hann barinn af fjórum drengjum inni í skólanum, sem byrjaði á því að það var verið að henda mat í hann og aðra krakka. Kennari og skólastjóri voru í matsalnum, en sögðust ekki hafa orðið varir við neitt. Eftir þessar barsmíðar þá kom hann nefbrotinn heim með marbletti út um allt, fékk heilahristing og var lengi veikur, og í langan tíma á eftir var hann að fá blóðnasir bara upp úr þurru,“ segir Guðmunda. Að hennar sögn eru fjórar öryggismyndavélar í anddyrinu, en engin þeirra virkaði í það skipti eftir því sem skólastjórinn sagði.
„Þá var þetta orðið það alvarlegt að ég segi nú er þetta komið gott,“ segir Guðmunda. „Við kærðum til lögreglunnar og það er ekkert búið að gerast í málinu, það er ekki búið að tala við drengina, eða foreldra þeirra. Þegar ég kanna feril málsins hjá lögreglunni þá eru alltaf einhverjar afsakanir: „það eru jarðskjálfar,“ „það er covid,“ og svo framvegis. Við erum með lögfræðing í málinu líka, sem hefur heldur ekki náð í eða fengið svör frá lögreglunni yfir þessum seinagangi.“
Guðmunda segir að sonur hennar hafi oft gert lítið úr eineltinu og barsmíðunum. „Til að ekki yrðu fleiri barsmíðar. Hann er búinn að blokka þessa drengi á samfélagsmiðlum, en það stoppar þá ekki í að fá síma hjá öðrum og senda honum skilaboð þar, með myndum af sér, hótunum og „fokk-merkjum“.
Það er þó ekki bara sonur Guðmundu sem hefur orðið fyrir aðkasti af hálfu hópsins. „Í eitt skipti kom 20 unglinga hópur hér í garðinn hjá okkur, og þar sem að þeir hittu ekki á son minn þá réðust þeir bara á þann næsta, vin hans úr Reykjavík, sem var hér. Bróðir minn varð vitni að árásinni á hann og gekk hér á milli þeirra.“
Í annað skipti var vitni að því að hópurinn braust inn á heimili þeirra, með því að fara í gegnum glugga á heimilinu. Gerði hópurinn sig síðan heimakominn í herbergi sonar Guðmundu.
„Börnin okkar verða ekkert meira í þessu,“ eru svörin sem ég fæ frá foreldrum unglinganna þegar ég tala við þá,“ segir Guðmunda. „Það breytist samt ekki neitt. Ofbeldið versnar bara ef eitthvað er.“
Sjálf segir hún að henni hafi liðið vel í Grindavík og verið með góða vinnu. „En börnunum mínum leið ekki vel þar, en syni mínum finnst erfitt að vera að flytja frá vinum sínum.“
Uppfært kl. 19.40
DV tók frétt Mannlífs upp og birti frétt hjá sér, og fékk síðan ábendingu frá íbúa í bænum um að það væri ekki sonur Guðmundu sem er þolandi í myndbandinu. DV bar ábendinguna undir Guðmundu sem leiðréttir fyrri frásögn sína við blaðamann Mannlífs og segir að þolandinn í myndbandinu sé drengur sem hafi verið í fóstri hjá henni síðasta haust, en ekki sonur hennar. Hún svarar blaðamanni DV með að ofbeldi tiltekinna unglingahópa í Grindavík beinist gegn fleirum en syni hennar:
„Lögreglan er með þetta vídeó og ég var búin að kæra þetta. Það var síðan ráðist var á son minn í janúar og hann barinn af fjórum strákum, kom nefbrotinn og alblóðugur heim, og með heilahristing,” segir Guðmunda við blaðamann DV, líkt og hún sagði við blaðamann Mannlífs fyrr í dag. Sjá frétt DV.
Færslu Guðmundu má sjá hér fyrir neðan, við vörum við myndbandinu.