Rannsóknarnefnd samgöngslysa hefur skilað skýrslu vegna banaslysiðsins sem varð á brúnni við Núpsvötn 27. desember 2018. Þrír farþegar létust í slysinu, konur 33 ára og 36 ára, og 11 mánaða stúlkubarn. Alls voru sjö manns í bílnum, breskir ferðamenn.
Konurnar voru ekki í bílbelti, og barnið ekki í barnabílstól, eins og fram kemur í skýrslu nefndarinnar, sem tilgreinir fjóra þætti sem eru taldir hafa orsakað banaslysið. Það að enginn hafi verið í belti eða barnabílstól er einn þeirra. Ökumaður bílsins er talinn hafa ekið yfir hámarkshraða, en þegar hann missti stjórn á jeppanum sem hann ók yfir einbreiða brú fór hann upp á vegriðið hægra megin vegarins sem gaf undan. Talið er að veggrip hafi verið mjög skert vegna ísingar á brúnni þegar slysið varð.
Í skýrslu nefndarinnar kemur fram að samkvæmt hraðaútreikningi hafi ökumaður að öllum líkindum verið á 114 kílómetra hraða á klukkustund. Skekkjumörk eru 8 kílómetrar á klukkustund og hefur bíllinn því verið á hraða á bilinu 106 til 122 kílómetrum á klukkustund. Hámarkshraði á brúnni var 90 kílómetrar á þeim tíma sem slysið varð, en eftir það var hann lækkaður í 50 kílómetra.
Í skýrslunni segir einnig að brúin yfir Núpsvötn standist ekki núverandi staðla. Brúin var opnuð fyrir umferð árið 1973 og kemst nefndin að því að hönnunarstaðlar hafi breyst síðan þá.
Samkvæmt Vegagerðinni stendur til að reisa nýja brú yfir Núpsvötn á þessu ári og hvetur nefndin stjórnvöld og Vegagerðina til að fylgja þeim áætlunum eftir.
Áfengis- og lyfjaprófanir á ökumanni gáfu ekki til kynna notkun lyfja eða vímuefna.