Íslendingar munu margir ferðast innanlands í sumar og því tilvalið að beygja stundum út af þjóðveginum og þefa uppi skemmtileg söfn. Á móts við Akureyri við norðanverðan Eyjafjörðinn, nánar tilekið á Svalbarðsströnd, er áhugavert safn sem heitir því skemmtilega nafni Safnasafnið.
Þar gefur að líta 6.400 verk eftir listamenn sem eiga það flestir sameiginlegt að vera sjálfmenntaðir. Verkin eru bæði nútímalist, alþýðulist og handverk en einnig er hægt að kynna sér alþýðulist og menningu frá ýmsum löndum þar sem bókakostur safnsins er mikill. Sérlega gaman er að setjast út á skjólsælan sólpallinn með kaffibolla og glugga í bækur. Stofnendur Safnasafnsins eru þau Níels Hafsteinn og Magnhildur Sigurðardóttir en þau hafa safnað listaverkum listamanna sem hafa stundum verið utanveltu við helstu strauma og stefnur. Reglulega eru haldnar sýningar á safninu og í sumar verður meðal annars sýning um verk Sölva Helgasonar í tilefni af því að 200 ár eru liðin frá fæðingu hans en fleiri skemmtilegar sýningar verða í safninu í sumar og hægt er að skoða þær nánar hér. Virkilega vel uppsett og skemmtilegt safn að heimsækja.