Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-4.3 C
Reykjavik

Guðlaug er fegin að vera komin á öruggan stað: „Finnst ég loksins geta andað“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðlaug Böðvarsdóttir er himinlifandi með að vera komin til Íslands eftir að hafa þolað margra mánaða útgöngubann og óvissu vegna COVID-19 faraldursins á Ítalíu. Um tíma var ekki út séð með að Guðlaug og fjölskylda hennar kæmust til landsins en betur fór en á horfði og segir Guðlaug fjölskylduna upplifa algjört frelsi á Íslandi.

„Ég er til! Það er einhvern veginn tilfinningin sem ég upplifði þegar ég horfði á útsýnið á Árhúsum á Hellu og sá fólk í útilegu labbandi um án þess að vera með grímu á andlitinu. Allt í einu gat ég brosað framan í fólk og fengið sýnilegt bros á móti, nokkuð maður tekur ekki lengur sem sjálfsögðum hlut. Svo var alveg yndislegt að fá að faðma foreldra mína. Mér finnst ég bara loksins geta andað,“ segir Guðlaug Böðvarsdóttir, sem er stödd á Íslandi ásamt tveimur ungum sonum þeirra, þriggja ára og eins árs, en ítalskur eiginmaður hennar er væntanlegar til landsins í lok mánaðarins.

Erfið heimferð

Fjölskyldan er búsett í smábænum Castellucchio í Lombardiu-héraðinu á Ítalíu þar sem hún hefur þurft að þola margra mánaða útgöngubann og nagandi óvissu vegna COVID-19 faraldursins sem dregið tæplega 35 þúsund manns til dauða á Ítalíu og sett allt á hvolf. Um tíma var óvíst að draumur fjölskyldunnar um að komast til Íslands í sumar yrði að veruleika og þegar Mannlíf ræddi við Guðlaugu síðast í maí var hún alls ekki bjartsýn á að eitthvað yrði af ferðinni. Hún segir að sem betur fer hafi nú ræst úr því og fjölskyldan sé í skýjunum með að vera komin til landsins, þótt ferðin hingað hafi alls ekki gengið þrautalaust fyrir sig.

„Allt í einu gat ég brosað framan í fólk og fengið sýnilegt bros á móti, nokkuð maður tekur ekki lengur sem sjálfsögðum hlut. Svo var alveg yndislegt að fá að faðma foreldra mína.“

„Við flugum hingað til landsins föstudaginn 3. júlí,“ segir Guðlaug. „Flugið frá Malpensa í Mílano voru fjórir mjög laaangir klukkutímar. Að sitja inni í flugvél með grímu og eins árs gamalt barn í fanginu, sem situr eðlilega ekki kyrrt, er hlutur sem ég hef engan sérstakan áhuga á að endurtaka. Sá eldri hafði ofan af sér í byrjun en svo fór pirringur að gera vart við sig í restina og það var ekki á bætandi að við þurftum að bíða í flugvélinni í næstum klukkutíma því það voru þrjár vélar á undan okkur og það má bara viss fjöldi vera inni í flughöfninni. Þá fór pirringur og þreyta í hæstu hæðir hjá strákunum,“ segir hún og dæsir.

Guðlaug segir fjölskylduna hafa farið í skimum strax við komuna til landsins. Þótt niðurstaðan hafi reynst neikvæð og fjölskyldan ekki þurft að fara í sóttkví hafi hún samt sem áður ákveðið að verja fyrstu tveimur og hálfa deginum á Árhúsum á Hellu. Nú búi hún hjá foreldrum Guðlaugar. „Það eru allir rosa ánægðir með að við séum komin heim,“ segir hún. „Bæði af því að það eru þrjú ár frá því að við komum hingað síðast og svo vissu líka allir hvað ástandið er búið að vera erfitt þarna úti, þannig að fólk er ánægt með að þetta skyldi takast.“

- Auglýsing -

Lífið að komast aftur í samt lag

Spurð hvort ástandið sé eitthvað farið að skána í Castelluchio, þar sem fjölskyldan er eins og áður segir búsett, segir Guðlaug að þar sé lífið loks að komast aftur í samt lag. „Heima hjá okkur er staðan nokkuð góð. Það er bara eitt virkt smit núna en í heildina hafa um 24 manneskjur af um 5.500 íbúafjölda smitast af COVID-19. Lífið er að færast smám saman í samt horf. Kaffihúsin hafa opnað að nýju. Bæjarhátíð verður haldin. Það er verið að reyna að gera eitthvað fyrir bornin. En fólk þarf enn að vera með grímur og þarf þess eitthvað áfram.“

Mikilvægt að sofna ekki á verðinum

- Auglýsing -

Upplifirðu mun á ástandinu hér og heima á ítalíu. „Já, það er er náttúrulega svakalegur munur á löndunum hvað varðar vírusinn og hvernig hann hefur leikið þessi tvö lönd. Þar af leiðandi er kannski svolítið erfitt að bera saman hvernig staðið hefur verið að málum. Mér finnst þríeykið svokallaða þó hafa staðið sig rosalega vel. Eflaust er ekkert grín að setja fullorðnu fólk reglur og reyna að segja því hvernig það á að haga sér, hvort sem það eru Íslendingar eða Ítalir.“ Hún bætir við að þótt staðan sé orðin góð innan gæsalappa sýni ný smit undanfarið að mikilvægt sé að sofna ekki á verðinum í baráttunni gegn COVID-19.

Nýtur hverrar mínútu með sínum nánustu

En að einhverju léttara, hvað verðið þið fjölskyldan lengi á Íslandi og hvað ætlið þið að gera meðan þið eruð hérna? „Við erum hjá mömmu og pabba núna. Svo förum við örugglega eitthvað á flakka um landið þegar maðurinn minn kemur,“ svarar Guðlaug hress í bragði og segir fjölskylduna snúa aftur heim til Ítalíu 14. ágúst. „Maður bara krossleggur fingur og vonar að allt sé á uppleið. Að þetta reddist allt saman, eins og Íslendingar segja gjarnan. Skólarnir fari að opna og búðarferðirnar fari að verða skemmtilegar aftur og auðvitað að gamla fólkið geti farið að lifa án þess að þurf að vera í stöðugum ótta. Annars reyni ég bara sem minnst að hugsa um heimferðina því ég er hér til að njóta lífsins og vera með mínum nánustu.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -