Hugsjónamaðurinn Hrafn Jökulsson stendur í stórræðum við að hreinsa fjörur á Ströndum. Tugir sjálfboðaliða eru til hjálpar.
Hrafn Jökulsson, hugsjónamaður og skákfrömuður, hefur gert það að sínu stærsta baráttumáli að hreinsa fjörur í Árneshreppi þar sem plast og annar úrgangur berst jafnan á land. Hreinsunarstarfið hófst í vor og mættu tugir sjálfboðaliða til að leggja málefninu lið. Mannlíf ræddi við Hrafn þar sem hann stikaði um fjörur í Árnesi með gogg í hendi og eldmóð í hjarta. Ósjálfrátt kemur upp í hugann gömul vísa: Fuglinn í fjörunni, hann heitir már. En þessi heitir auðvitað Hrafn.
„Kolgrafarvík hefur á síðustu vikum eignast marga og góða vini sem ætla að hjálpa mér að taka til í fjörum Trékyllisvíkur,“ segir Hrafn Jökulsson sem undanfarið hefur staðið í ströngu við að hreinsa fjörur í Árneshreppi.
„Ég ætla að endurgjalda Kolgrafarvík, fóstru minni, fyrir öll ævintýrin í gegnum árin og taka til.“
Hrafn hefur sett í gang sérstakt átak í Kolgrafarvík sem er í landi Stóru-Ávíkur þar sem hann var í sveit sem barn og hefur síðan haldið tryggð við. Fjölmargir hafa lagt Hrafni lið í átakinu. Hann segist vera þakklátur fyrir undirtektirnar. „Ferðafélag Íslands stendur svo sannarlega undir nafni sem menningar- og framfarafélag og sendi til mín vaskan hóp sjálfboðaliða 17.-20. júní. Það var upplifun að kynnast því magnaða fólki sem kom um langan veg með bros á vör til að hreinsa fjörur og frelsa náttúruna úr fjötrum. Okkur bættist svo heldur betur liðsauki þegar heill gönguhópur Ferðafélagsins kom með okkur í fjörur Finnbogastaða og dró saman ókjör af plasti. Ég er Ferðafélaginu, jafnt starfsmönnum sem sjálfboðaliðum og göngufólki, óendanlega þakklátur fyrir liðveisluna. Og það var hreinlega eins og almættið hefði smellt fingrum þegar Tómas Knútsson, stofnandi Bláa hersins, kom askvaðandi með alla þekkingu sína og eldmóð. Ekki er minna um vert að Þórarinn Ívarsson, kraftaverkamaðurinn bak við Veraldarvini, ætlar að senda hópa sjálfboðaliða til mín í sumar, og ég hlakka mikið til að kynnast því góða fólki,“ segir Hrafn.
Hrafn nefnir líka kraftmikinn hóp frá Bæ í Trékyllisvík sem hafi lagt til tugi vinnustunda í fjörum Finnbogastaða og Stóru-Ávíkur. Félag Árneshreppsbúa og Rjúkandi og Græni herinn og fleiri samtök eru einnig búin að bjóða fram krafta sína.
„Nú eru aðeins 40 dagar síðan ég vann það heit í Kolgrafarvík að hreinsa ævintýraheim bernsku minnar og forða honum frá því að verða öskuhaugar minna efri daga. Í samræmi við þetta er ég að endurskipuleggja tilveruna svo ég geti helgað mig fjöruhreinsun og fjársjóðsleit á Ströndum. Svo er ég líka að draga saman efni í nýja bók um Árneshrepp og vonast til að geta verið þar sem mest,“ segir Hrafn.
Hann kom fyrst í Árneshrepp átta ára gamall vinnupiltur þjóðhátíðarárið 1974. Hann segir að enginn staður í heiminum skipti sig meira máli, nema Skáholt í Vesturbæ Reykjavíkur þar sem hann ólst upp.
„Ég ætla að endurgjalda Kolgrafarvík, fóstru minni, fyrir öll ævintýrin í gegnum árin og taka til. Í þessari ægifögru og stórbrotnu vík, sem breiðir faðm mót íshafinu, hafa safnast upp ókjör af plasti og rusli, sem vetrarbrimið hrærir saman við drumba og spýtur í þessari miklu rekavík. Áður voru trén frá Síberíu mjög mikilvæg auðlind en nú eru fúasprek og ónýt tré að kaffæra fjörur og grundir. Ég ætla að skila af mér Kolgrafarvík eins og hún var þegar ég kom þangað fyrst fyrir 46 árum. Þá var hvert sprek notað, í hverri spýtu bjó smíðisgripur, í hverjum drumbi girðingarstaurar eða byggingarefni. Fjörukambar og grundir voru ósnortin af plasti og rusli svo þarna var dásamlegur heimur – sem við ætlum að endurheimta,“ segir Hrafn.
Hann er með ótal hugmyndir um það hvernig megi breyta fjöruruslinu í verðmæti. Hugsanlegt sé að kurla rekaviðinn niður og nota í göngustíga. Eða jafnvel vinna hann með öðrum hætti. Aðalatriðið sé að hreinsa fjörurnar af aðskotaefninu. Og það er ekkert sem stöðvar Hrafn, fuglinn í fjörunni. Hann stefnir að útrás fyrir Vini Kolgrafarvíkur.
„Vinir Kolgrafarvíkur láta ekki staðar numið þar – á næstu vikum verður hreinsað til í öllum fjörum Finnbogastaða og Stóru-Ávíkur, en það eru líka fleiri spennandi fjörur fram undan. Ef við getum tekið til í einni vík hljótum við að geta tekið til í öllum víkum Íslands undir kjörorðum Vina Kolgrafarvíkur: Saman erum við sterkari,“ segir hann.
Myndir / Jóhanna Engilráð og Reynir Traustason