Þriðjudagur 24. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Bannað að vera fáviti

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hljómsveitin Labrab sem er skipuð þeim Viðari Hákoni Gíslasyni og Ólafi Hjördísarsyni Jónssyni var að senda frá sér lagið Wichita. Félagarnir hafa verið viðloðandi tónlist um árabil og stefna á að senda frá sér kassettu í sumar og plötu með haustinu en er illa við að skilgreina tónlistina á ákveðinn hátt.

„Björk sagði einu sinni að það væri fínt að lýsa tónlistinni sinni sem poppi, þá yrði enginn hræddur. Popp er auðvitað víðasta skilgreining á tónlist sem til er þannig að við stimplum þetta rugl í okkur klárlega sem popp,“ útskýrir Viðar, þegar hann er spurður hvernig þeir skilgreini tónlist sína. Hann segir að sveitin taki hins vegar hvorki mið af tónlistarstefnum né markhópum. Slíkur hugsunarháttur sé heftandi. Engar reglur gildi í tónlist. „Fyrir utan kannski að maður má helst ekki vera fáviti við vini sína, það er góð regla,“ segir hann og kímir.

Óhætt er að segja að Viðar og Ólafur séu engir nýgræðingar í tónlist enda hafa þeir báðir komið víða við á ferlinum. „Við höfum spilað saman í nokkrum sveitum alveg síðan árið sautjánhundruð og súrkál; fyrst í skólahljómsveit í Hagaskóla og síðan í Púff og Kvartett Ó.Jónsson & Grjóni. Það var reyndar æði, því þá bjuggum við til okkar fyrsta hljóðver og tókum upp plötu á átta rása segulbandstæki, en planið er einmitt að endurútgefa gamla 7” bleika vínylplötu sem uppgötvaðist í kössum í geymslu um daginn,“ segir Viðar og brosir.

„Við höfum spilað saman í nokkrum sveitum alveg síðan árið sautjánhundruð og súrkál.“

Síðan skildu leiðir. Ólafur fór í arkitektanám í Danmörku og Viðar tók þátt í stofnun Trabant og spilaði lengi með þeirri sveit. Þegar hún hætti var hann kominn með nóg af bransanum og flutti til Noregs. Hann segir að þar hafi tónlistaráhuginn vaknað að nýju og eftir flutning til Íslands hafi hann hellt sér aftur út í tónlistina. Undanfarin tvö ár hafi þeir Ólafur verið önnum kafnir við að semja nýtt efni. „Þegar við hittumst fæðist oftar en ekki nýtt lag, eða jafnvel fleiri,“ segir hann. „Við látum hlutina bara gerast og gerum ekki einu sinni kröfu um að allar hugmyndir þurfi að virka. Búum bara til endalaust af efni og hendum því inn á sameiginlegt ský. Nú fer einmitt að koma að því að velja úr haugnum, fullvinna það og gefa út.“

Fyrir skemmstu sendu félagarnir frá sér nýtt lag, Wichita, og í sumar er von á fjögurra laga kassettu með kóða, sem gerir fólki kleift að nálgast tónlistina rafrænt, og í haust ætla þeir að gefa út plötu. „Reyndar ættum við að geta gefið út þrjár til fimm plötur með öllum þessum hugmyndum,“ segir Viðar, „en byrjum bara á kassettunni.“

Af hverju kassetta? „Tilfiningin við að gefa út efni á föstu formi er bara allt öðruvísi en að gefa út efni rafrænt, manni finnst það áþreifanlegra,“ svarar hann. „Þar að auki eru kassettur og vínylplötur fallegir gripir.“

- Auglýsing -

Spurður hvað sé fram undan segir Viðar þá félaga vera að velta fyrir sér að halda fámenna og skemmtilega tónleika í sumar. „Við Óli og pabbi hans smíðuðum áhorfendapall í garðinum hjá 12 Tónum í fyrra. Það væri virkilega vel til fundið að halda þar gott kassettuútgáfugigg í sumar. Helst með grilli og bingói og drullumörgu skemmtilegu fólki“.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

dfkjpogv

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -