Samfélagsmiðlar hafa logað eftir að Þórdís Björk Þorfinnsdóttir, leik- og söngkona, viðhafði ummæli um Kópasker og Raufarhöfn og veðurfarið þar eftir ferð hennar þangað með leikhópnum Lottu. Þótti mörgum orð Þórdísar Bjarkar niðrandi og hvöttu fólk til að sniðganga leiksýningar hópsins, sem alla jafna hafa fallið vel í kramið hjá barnafjölskyldum.
Þórdís Björk, sem og leikhópurinn, baðst afsökunar á ummælum sínum, en það virtist ekki duga til.
Þórdís Björk var á forsíðu Fréttablaðsins í dag, þar sem hún greindi frá því að hún hefur fengið hótanir um líflát og nauðgun vegna ummælanna.
Sjá einnig: Hótað lífláti og nauðgun vegna ummæla um Kópasker og Raufarhöfn
Í færslu sem Þórdís Björk birti fyrir stuttu á Facebook fer hún yfir málið og síðustu daga sem hún segir hafa verið lærdómsríka.
„Það er ótrúlega skrýtin tilfinning að lenda í hakkavél samfélagsmiðlanna og sjá ókunnugt fólk rífast um hvort að gjörðir mínar hafi verið réttar eða rangar,“ segir Þórdís Björk, sem segist svolítið tætt, enda leikhópurinn á ferð um landið.
Segist hún ekki bera neinn kala til samfélaganna á Kópaskeri og Raufarhöfn eftir að hafa borist hótanir í kjölfar ummæla sinna. „Ég dæmi engan fyrir gjörðir einstaklinga sem þurfa greinilega hjálp. Það væri bæði heimskulegt og ósanngjarnt.“
Segir málið kenna okkur samfélagsmiðlahegðun
Þórdís Björk segir málið allt geta kennt fólki hvernig það hagar sér á samfélagsmiðlum, þar sem fólk virðist dæla út skoðunum sínum og gagnrýni á aðra án þess að hika.
„Jafnvel þó að það viti ekki neitt um þann sem um ræðir eða í hvaða samhengi hlutir voru settir fram,“ segir Þórdís Björk og bættir við að hún hafi verið úthrópuð sem hrokafull forréttindakona og margt verra vegna tveggja skjáskota. „Mér ofbauð sérstaklega þegar sveitarstjóri var farinn að stíga fram og saka mig um slíkt í viðtali við fjölmiðil.“
Sjá einnig: Kolbrún segir ummæli Þórdísar lýsa hroka
Þórdís Björk segir að gott væri ef allir stöldruðu við og íhuguðu hverju það skilar að ata einhvern aur á samfélagsmiðlum.
„Ég held að við séum öll sek um að dæma fólk á samfélagsmiðlum. En ég held að mikið væri unnið ef allir reyndu að staldra við, íhuga hverju það skilar að ata einhvern auri og leyfa helst öðrum að njóta vafans,“ segir Þórdís Björk, sem segist áður hafa fengið svipaðar hótanir, sem meðlimur Reykjavíkurdætra.
„Þessi gagnrýnisstormur sem ég lenti í varð til þess að vanstilltir einstaklingar misstu stjórn á sér. Ég hef áður fengið svipaðar hótanir, aðallega útaf þeim glæp að búa til tónlist með Reykjavíkurdætrum sem fellur ekki að smekk þeirra.“
Ætlar að kæra
Þórdís Björk greinir frá að hún ætlar að kæra þær hótanir sem henni bárust, og segir hálfsúrealískt að vera á þeim stað að reyn að hunsa slík skilaboð og halda áfram með lífið.
„Það þurfti því að benda mér á að þetta væri eitthvað sem yrði að stöðva og þessvegna ætla ég að leggja fram kæru. Ég brenn ekki af einhverjum hefndarþorsta gagnvart þessum einstaklingum. Ég vil að þeir fái alvarlegt tiltal og fræðslu svo að þessi hegðun þeirra þróist ekki út í eitthvað enn alvarlegra.“
Vonsvikin að afsökunarbeiðni var hunsuð
Þórdís Björk segist ekki hafa áttað sig á því fyrst að ummæli hennar særðu fólk, hún hafi því strax beðist afsökunar. „Það olli mér vonbrigðum að sú afsökunarbeiðni var nánast hunsuð.“
Hún segir einnig að hún hafi séð marga verja hana á samfélagsmiðlum með þeim orðum að hún hafi ekki þurft að biðjast afsökunar og henni sé frjálst að hafa sínar skoðanir.
„Einnig hef ég séð marga verja mig á samfélagsmiðlum með þeim orðum að ég hefði aldrei átt að biðjast afsökunar og mér hafi verið frjálst að hafa skoðanir á veðri, vindum og þessum bæjum. Að hluta til er það alveg rétt en það sem mér þykir skipta máli er að ég særði greinilega fólk án þess að gera mér í fyrstu grein fyrir því og það leið mér einfaldlega illa með. Ég vildi því gjarnan biðjast afsökunar og gerði það strax. Það olli mér vonbrigðum að sú afsökunarbeiðni var nánast hunsuð.“
Að lokum nefnir Þórdís Björk atvik frá leiksýningu eftir ummæli hennar, og segir hún að það hafi verið ótrúlega skemmtilegt og henni þyki vænt um það.
„Ég tækla helst erfiðleika með húmor. Þótt ég segi sjálf frá þá er hann yfirleitt nokkuð góður og því er talsverður skellur að ég er að verða þekkt fyrir mislukkað grín. Það sama gildir ekki um skemmtilega konu sem kom með börnin sín og karlinn á Lottu-sýningu á meðan stormurinn var í hámarki.
Hún borgaði fyrir sig og börnin en benti svo á eiginmanninn og sagði: „Fær hann ekki frítt. Hann er frá Kópaskeri,“ sagði hún og skellihló.
Þetta atvik var ótrúlega skemmtilegt og mér þótti afar vænt um það. Gleymum því ekki gleðinni og hegðum okkur með ábyrgum hætti á samfélagsmiðlum.“