Bókin Petit Places er uppspretta hugmynda fyrir minni heimili.
Breyttur lífsstíll, þétting byggðar og hátt húsnæðisverð eru allt þættir sem hafa áhrif á aukningu eftirspurnar eftir minni íbúðum en litlar íbúðir þurfa líkt og þær stærri að uppfylla allar þarfir íbúanna.
Það getur reynst mörgum mikil áskorun að finna réttar hönnunarlausnir til þess að hámarka nýtni og er geymslupláss oft af skornum skammti. Flestir eru sammála um að gæði heimilisins skipta meira máli en stærðin og heimilið á að laga sig að lífsstíl íbúanna en ekki öfugt. Sniðugar hönnunarlausnir einfalda lífið og gera okkur kleift að njóta eins og best verður á kosið.
Bókin Petit Places er, eins og nafnið gefur til kynna, uppspretta hugmynda fyrir minni heimili. Lítil rými geta falið í sér gríðarlega möguleika ef þau eru innréttuð á skynsaman og útsjónarsaman hátt.
Í bókinni eru tekin fyrir öll helstu rými heimilisins eins og eldhús, svefnherbergi og baðherbergi þar sem sýndar eru sniðugar lausnir til þess að hægt sé að nýta hvern fermetra sem best. Margar mismunandi útfærslur eru sýndar og eru þær útfærðar af arkitektum, innanhússarkitektum og hönnuðum ásamt því að fagfólk gefur ýmis góð ráð sem allir ættu að geta nýtt sér.
Myndir / Gestalten