Seðlabankastjóri segir að tryggja þurfi sjálfstæði stjórnarmanna lífeyrissjóða til frambúðar.
„Að mínu áliti þarf að stíga miklu fastar til jarðar í því að tryggja sjálfstæði sjóðanna. Ég tel að regluumhverfi þeirra sé alltof veikt og að Fjármálaeftirlitið þurfi öflugri heimildir til inngripa,“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í samtali við Fréttablaðið.
Bendir hann á að nýleg tillmæli stjórnar VR til stjórnarmanna í Lífeyrissjóði verzlunarmanna um sniðgöngu á væntanlegu hlutafjárútboði Icelandair minni á hversu mikilvægt sé að þétta varnir í kringum sjálfstæða ákvarðanatöku innan lífeyrissjóða. Áríðandi sé að tryggja sjálfstæði stjórnarmanna til frambúðar þar sem þetta vandmál sé ekki nýtt af nálinni og muni dúkka upp aftur.
Í máli hans kemur fram að bankinn ætli að ræða við fjármála- og efnahagsráðuneytið og aðrar viðeigandi stofnanir um að fjármálaeftirlit bankans fái frekari heimildir til inngripa.