Formaður VR vill ekki bregðast við kröfu framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, SA, og forstöðumanns samkeppnishæfnisviðs SA, um að draga fullyrðingar sínar til baka. Hann segist vera að fara yfir stöðuna með lögfræðingum.
„Lögmenn félagsins og mínu persónulegu lögmenn eru að fara yfir stöðuna,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við Fréttablaðið, vegna yfirlýsingar Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins (SA), og Davíðs Þorlákssonar forstöðumanns samkeppnishæfnisviðs SA.
Halldór og Davíð sendu frá sér yfirlýsingu í gær, sem birtist á heimasíða SA, þar sem þeir segja ásakanir Ragnars á hendur sér ósannar. Ragnar hélt því fram í viðtali við Fréttablaðið að margt benti til að þeir hafi beitt sér fyrir því að lífeyrissjóðirnir fjármögnuðu kaup Icelandair á fimmtíu prósent hlut í Lindarvatni, eiganda Landssímareitsins. Í yfirlýsingunni rekja þeir Halldór og Davíð í nokkrum liðum af hverju ekkert af því sem Ragnar heldur fram fær staðist. Benda þeir meðal annars á þeir hafi ekki verið komnir til starfa hjá SA þegar umrædd endurfjármögnun átti sér stað. Þeir störfuðu þá báðir hjá Icelandair group.
„Það var því hvorki vilji, tilefni eða tækifæri til að beita einn né neinn þrýstingi af okkar hálfu vegna fjármögnunar framkvæmdanna á Landsímareitnum. Öllum ásökunum um slíkt er algerlega hafnað,“ segir í sameiginlegri tilkynningu þeirra.
Beina Halldór og Davíð þeim tilmælum til Ragnars Þórs að hann dragi fyrrnefndar fullyrðingar sínar til baka og biðji um leið alla hlutaðeigandi afsökunar á þeim. „Ella er óhjákvæmilegt að þau sem hafa orðið fyrir órökstuddum dylgjum hans íhugi réttarstöðu sína.“ Það geti einfaldlega ekki annað verið að hann geri það því það sé skýrt brot á landslögum að ásaka saklaust fólk um svo alvarlega háttsemi sem hann hafi nú gert.
Í Fréttablaðinu er Ragnar Þór nú spurður hvort ætli að verða við beiðni þeirra og draga ummæli sín til baka. „Ég get ekki tjáð mig um þessa frétt öðruvísi en þannig að við lögmenn okkar erum að fara yfir stöðuna,“ svarar hann.