Jeffrey Ross Gunter, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, vill fá að bera byssu hér á landi og vill jafnframt aukna öryggisgæslu. Er sendiherrann sagður hafa óttast um öryggi sitt síðan hann kom til landsins í fyrra. Fjallað er um málið í frétt CBS, en Vísir greindi fyrst frá.
Heimildarmenn CBS segja Gunter hafa beðið utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna um að falast eftir því við íslensk stjórnvöld að hann megi bera byssu. Þá mun hann einnig hafa beðið um brynvarðan bíl og vesti sem ver hann gegn hnífstungum. Ráðuneytið hafi þó ítrekað tilkynnt Gunter að hann sé ekki í hættu hér á landi og að það yrði talið móðgun ef hann sæktist eftir að bera vopn hér.
Samkvæmt heimildum Vísis hefur slík beiðni ekki verið lögð fram, en CBS greinir frá því að utanríkisráðuneyti Íslands hafi ekki veitt upplýsingar um hvort beiðni hafi borist frá Bandaríkjunum um mögulegan vopnaburð Gunter, sökum þess að yfirvöld tjái sigi ekki um öryggisráðstafanir erlendra erindreka.
Nánar er fjallað um málið á Visir.is.