Í Hafnarfirði er margt skemmtilegt að gerast um helgina. Við sögðum frá því fyrr í vikunni að Íshúsið fagnar 5 ára afmæli á morgun þar sem hönnuðir og listamenn starfandi í húsinu opna vinnustofur sínar fyrir gestum og gangandi. Margir eru nú þegar farnir að huga að jólagjafakaupum og því tilvalið að grípa tækifærið.
Á morgun á Suðurgötu 9 ætla Anthony Bacigalupo og Ýr Káradóttir einnig að vera með formlega haustopnun. Þar reka hjónin The Shed sem við fjölluðum um í 8. tbl. Húsa og híbýla fyrr í sumar.
Líkt og þar kom fram leggja þau Anthony og Ýr mikið upp úr upplifun og má segja að The Shed vinnustofa, verslun og samkomustaður í senn en markmið þeirra er að gefa af sér til bæjarbúa og þannig stuðla að betra samfélagi. Hjónin hafa um árabil hannað undir merkjum Reykjavik Trading Co. þar sem áhersla er lögð á handgerðar gæðavörur sem eru að mestu unnar úr staðbundnu efni.
Ásamt sinni eigin hönnun selja þau einnig sérvaldar og handgerðar vörur frá Californiu, Mexico og víðsvegar annars staðar úr heiminum.
Á dögunum hlutu þau jafnframt viðurkenningu Snyrtileikans fyrir framtak sitt í að fegra umhverfið en það má svo sannarlega segja að þau hafa tekið duglega til hendinni. Þau hafa bæði mikinn áhuga á garðrækt og hænurnar þeirra þrjár setja skemmtilegan svip á garðinn og gefa heimilislegt yfirbragð.
Gestum gefst kostur á að sækja hjónin heim á morgun eins og áður sagði á milli kl. 15 og 18 en þá ætla þau meðal annars að bjóða upp á sérbruggaðan epla- og rabarbarasíder frá Ægisgarði ásamt öðrum kræsingum. Nýjar haust- og vetrarvörur verða einnig frumsýndar sem óhætt er að mæla með.
Við hvetjum því alla eindregið til þess að gera sér ferð í Hafnarfjörðinn um helgina!