Sverrir Þór Einarsson, best þekktur sem Sverrir tattoo, lést í gær, 58 ára að aldri.
Sverrir var þekktur húðflúrari, en hann rak húðflúrstofuna Skinnlist Tattoo, ásamt eiginkonu sinni Diljá Petru Finnbogadóttur.
Dóttir Sverris Þórs, Sara Mist minnist föður síns með orðunum: „Elsku besti pabbi minn er farinn frá okkur. Sakna hans meira en orð fá lýst. Besti pabbi og afi sem nokkur gæti óskað sér, maðurinn sem alltaf allt fyrir alla og bað aldrei um neitt í staðinn. Sannur vinur vina sinna og alltaf til staðar fyrir alla þegar á reyndi. Gull af manni, þúsundþjalasmiðurinn sem gat allt, búið til hvað sem er og lagað allt. Mesti meistari sem uppi hefur verið sem bjó yfir mikilli vitneskju og styrk, maðurinn sem braut skiptilykla neð höndunum. Hann barðist eins og herforingi í eitt og hálft ár við krabbann, en hélt samt alltaf áfram að láta alla brosa. Minning hans mun lifa að eilífu og ég mun halda minningarafhöfn þar sem öllum er boðið sem vilja votta honum virðingu sína. Staðsetning og dagsetning verða auglýst síðar.“
Ástrós Tinna Þórsdóttir skrifar:
„Eftir erfiða baráttu hefur þessi mikli meistari loksins fengið frið. Ég á endalaust af fallegum minningum um þig og yndisgullið hana Dillu þína sem ég er ofboðslega þakklát fyrir. Ég lofa að standa þétt við bakið á þínu fólki eins og þú gerðir alltaf fyrir mig, elsku vinur.“
Haraldur Bogi Sigsteinsson skrifar:
„Í dag féll frábær félagi frá. Þessi frábæri maður hefur kennt mér eitt og annað um lífið. Það voru fáir sem fengu mig til að hlæja jafn dátt og fáir sem var jafn gaman að hlæja með. Klukkutímarnir sem við eyddum saman eru óteljandi, hvort sem það var undir nálinni eða bara að njóta lífsins. Ég mun sakna þínn elsku fallegi, hjartahlýi, ÓVIÐEIGANDI á köflum, yndislegi vinur minn, það verður aldrei neinn annar eins og þú. Við munum hittast aftur og þá veit ég að þú munt taka mér með opnum örmum eins og alltaf. Nánustu aðstandendum votta ég mína dýpstu samúð.“
Rósinkrans Már Konráðsson skrifar:
„Þú varst svo sannarlega sannur vinur, þótti alltaf jafn gaman að koma í heimsókn til þín, hvort sem það var heim til þín eða upp í vinnu, varst alltaf búinn að gera eitthvað nýtt og spennandi og hafðir alltaf frá skemmtilegum hlutum að segja. Sakna þín alveg ólýsanlega mikið og vildi óska að ég hefði verið á landinu til þess að koma og kveðja þig.
Varst mér sannarlega góður vinur og alltaf hægt að leita til þín sama hvað það var, þú vissir alltaf allt og varst alltaf tilbúinn að hjálpa og þið hjónin alveg mögnuð saman, yndislegra fólk er ekki hægt að finna.
Hvíldu í friði elsku vinur, það er gott að vita að þú sért kominn á góðan stað og laus við allan þennan sársauka og þjáningar.“
Mannlíf sendir fjölskyldu og vinum Sverris Þórs innilegar samúðarkveðjur.