Tæplega helmingur svarenda í skoðanakönnun Zenter og Fréttablaðsins er hlynntur Borgarlínu, en tæpur þriðjungur segist mótfallinn henni. Meiri stuðningur er við Borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni.
„Í stuttu máli er ég bara mjög ánægður með þennan sterka stuðning. Þetta er mikilvægt veganesti inn í næsta tímabil Borgarlínunnar sem er framkvæmdatímabil,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri um niðurstöður nýrrar skoðunarkönnuar í samtali við Fréttablaðið í dag.
Samkvæmt henni er tæplega helmingur svarenda fylgjandi Borgarlínu, en tæpur þriðjungur mótfallinn henni. Könnunin náði til fólks um land allt.
Stuðningurinn er langmestur í Reykjavík. Þar voru 57 prósent þeirra sem tóku afstöðu í könnuninni hlynntir Borgarlínu, en tæp 29 prósent andvígir henni. Næstmestur stuðningur er í Kópavogi en þar er rétt rúmur helmingur hlynntur en rúmur fimmtungur andvígur. Í Hafnarfirði er tæpur helmingur hlynntur og tæpur fjórðungur andvígur. Andstaðan er mest á Seltjarnarnesi. Þar eru sex af hverjum tíu mótfallnir Borgarlínu.
Þá eru konur hlynntari henni en karlar og yngra fólk er meira fylgjandi henni heldur en eldra. Minni stuðningur er við Borgarlínu á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.