Fjölmörg mál komu á borð lögreglu í gær og í nótt.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti 51 máli í gær og í nótt og eru fjórir vistaðir í fangageymslu, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.
Voru þrír handteknir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna. Einn var einnig grunaður um ölvunarakstur og annar um fíkniefnamisferli. Sá þriðji reyndist vera próflaus. Var öllum þremur sleppt eftir sýnatöku.
Skömmu eftir miðnætti var einn einstaklingur handtekinn grunaður um fíkniefnamisferli og er hann vistaður í fangageymslu.
Lögreglan handtók mann um þrjú í nótt fyrir að láta ófriðlega fyrir utan bráðamóttökuna í Fossvogi. Sá er einnig grunaður um eignaspjöll. Maðurinn var fluttur á lögreglustöðina við Hverfisgötu en hann var látinn laus eftir samtal við lögreglu.
Þá óskaði leigubílstjóri eftir aðstoð lögreglu. Hann var með tvo farþega sem neituðu að borga fyrir farið með leigubifreið. Síðar óskaði annar leigubílstjóri eftir aðstoð lögreglu vegna sama aðila sem neitaði að borga fyrir farið. Var umræddur aðili vistaður í fangageymslu.
Tvö umferðaróhöpp urðu í gær. Í öðru tilvikinu var einn fluttur á bráðamóttöku með sjúkrabifreið, en engin slys urðu á fólki í hinu tilvikinu. Þá bárust lögreglu nokkrar tilkynningar um unglinga að aka ógætilega á vespum við Breiðholtsskóla í gærkvöldi.