Fyrrverandi þingmaður segir að Bandaríkjamenn búsetta hérlendis kvarti undan því að fá ekki þjónustu hjá Bandaríska sendiráðinu á Íslandi.
„Fólk bara kemst ekkert að. Það er ekkert hægt að nálgast. Það hefur lengi verið þekkt fyrir að vera erfitt, það þarf að panta tíma í gegnum tölvukerfið, en það er ekki hægt að panta tíma,“ segir Nichole Leigh Mosty fyrrverandi þingmaður Bjartrar framtíðar, í samtali við RÚV.
Í frétt RÚV segir að Nicole hafi reynt sambandi til að breyta nafni sínu, en hún gifti sig á Íslandi og tók upp ættarnafn manns síns. Fæðingarnafn hennar er aftur á móti skráð í Bandaríkjunum og hún lenti því í vandræðum með að kjósa í forkosningum fyrir forsetakosningar ytra, þegar hún var í Bandaríkjunum síðast.
Gagnrýnir Nicole ennfremur Jeffrey Ross Gunter sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi harkalega fyrir að vilja flytja inn þann ótta sem víða ríkir í Bandaríkjunum í stað þess að kynnast friði og öryggi á Íslandi.
Eins og kunnugt er hefur Gunter verið til umræðu í íslenskum fjölmiðlum eftir umfjöllun CBS sem heldur því fram að sendiherrann vilji sérstakt leyfi til að bera skotvopn hérlendis, vopnaðan lífvörð og brynvarðan bíl þar sem hann óttist um líf sitt á Íslandi. Umfjöllunin hefur ekki beint fallið í kramið meðal netverja hérlendis.