Gísli Rúnar Jónsson leikari og leikstjóri er látinn, 67 ára að aldri.
„Með djúpri sorg tilkynnum við fjölskyldan að okkar ástkæri Gísli Rúnar Jónsson leikari, leikstjóri, handritshöfundur og þúsundþjalasmiður er látinn,“ segir í tilkynningu sem fjölskylda Gísla Rúnars hefur sent frá sér.
„Fjölskyldan syrgir kærleiksríkan og einstakan fjölskylduföður og þjóðardýrgrip,“ segir ennfremur. Fram kemur í tilkynningunni að Gísli Rúnar hafi látist á heimili sínu í gær.
Gísli Rúnar varð þjóðkunnur sem annar Kaffibrúsakarlanna í stuttum gamanatriðum í skemmtiþáttum í Sjónvarpinu haustið 1972. Hann var á löngum ferli sínum ötull leikari, leikstjóri, handritshöfundur, þýðandi og þáttastjórnandi. Þá skrifaði hann ævisögu Björgvins Halldórssonar, Bó & Co, sem kom út 2001 og nokkru síðar bókina Ég drepst þar sem mér sýnist þar sem hann tíndi til skrautlegar gamansögur frá löngum ferli sínum.