Fyrrverandi umsjónarmaður COVID-19 göngudeildar Landspítalans vill herða aðgerðir til að koma í veg stórslys.
„Ég mæli eindregið með því að yfirvöld hlusti á raddir heilbrigðisstarfsfólks og bregðist hratt við með harðari aðgerðum og ítarlegri skimun. Að mínu mati er tækifæri til þess að forða stórslysi með því að innleiða slíkar reglur fyrir verslunarmannahelgina. Við verðum að snúa vörn í sókn,“ segir Ragnar Freyr Ingvarsson læknir, í samtali við Fréttablaðið.
Ragnar Freyr var umsjónarmaður COVID-19 göngudeildar Landspítalans á meðan kórónuveirufaraldurinn geisaði fyrr á árinu. Hann sagði önnur sjónarmið ráða för en heilbrigði Íslendinga þegar landið var opnað 15. júní síðastliðinn og nú gefi margt til kynna að í óefni sé komið, eins og það er orðað í Fréttablaðinu.
Segir Ragnar Freyr margar vísbendingar um að úti í samfélaginu séu smitberar með lítil einkenni. Það sé áhyggjuefni og því mikilvægt að vera á varðbergi.