Stofnandi Viðreisnar segir viðbrögð ríkisstjórnarinnar við útbreiðslu COVID-19 síðustu daga og vikur einkennast af hégóma, seinagangi og aðgerðarleysi.
„Þegar loksins var farið gang var sett upp sýning með þremur ráðherrum, sem greinilega vildu ná í hluta af þeirri virðingu sem þríeykið hefur notið. En vandinn snýst ekki um hégóma heldur skjót viðbrögð. Það bað nefnilega enginn um hik og aðgerðaleysi,“ segir Benedikt Jóhannesson, stofnandi Viðreisnar, í pistli í Morgunblaðinu í dag.
Í pistlinum fer Benedikt hörðum orðum um ríkisstjórnina og viðbrögð hennar við seinni bylgju kórónaveirufaldursins. Segir hann þau einkennast af hégóma og seinagangi og vísar meðal annars í skrif Jóhönnu Jakobsdóttur, rannsóknasérfræðings við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, í Fréttablaðinu á dögunum, en þar furðar hún sig á því hvað ríkisstjórnin þurfi voðalega „marga fundi til að ræða einfaldan hlut“.
„Það eru meira en tveir sólarhringar síðan ríkisstjórninni var ljóst að það er samfélagssmit (ekki hópsmit) í gangi og þau funda enn,“ skrifar Jóhanna. „deCODE raðgreindi sýnin og ríkisstjórnin vissi fyrir mörgum dögum að um samfélagssmit væri að ræða. Við nýttum okkur ekki forskotið í þeim upplýsingum strax heldur komum okkur á þennan stað. Einn dagur getur breytt öllu.“
Segir hún þetta geta þýtt að aukavikur í takmörkunum, ef við erum óheppin.
Umræddur seingangur virðist ekki koma stofnanda Viðreisnar á óvart, síður en svo. „Stjórnarflokkarnir sameinuðust um að stöðnun væri samheiti við stöðugleika. Í stöðnun nýtur hinn svifaseini sín,“ skrifar hann og líkir stjórnarsamstarfi Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar við gamla misheppnaða gamanmynd sem hét Hlauptu hlunkur, hlauptu.