Í rúm fjórtán ár hef ég verið í hjónabandi með konu sem mér þykir mjög vænt um. Við eigum yndisleg börn og þótt oft hafi gefið á bátinn, fjármálin verið erfið og fleira, binda okkur sterk bönd og við höfum alltaf reynt að láta hjónabandið ganga. Fyrir nokkrum mánuðum komst ég hins vegar að því að hún er alkóhólisti og hefur verið dagdrykkjumanneskja um tíma.
Hún játaði þetta fyrir mér kvöld eitt, enda var hún þá komin í þrot og vissi ekki lengur hvernig hún gæti haldið áfram blekkingaleiknum. Vegna vinnu minnar er ég mikið í burtu og þess vegna átti hún mjög auðvelt með að halda ástandinu leyndu fyrir mér. Ég varð aldrei var við að hún drykki óhóflega þegar ég var heima, enda sagðist hún hafa passað að drekka mun minna þegar ég var á staðnum. Hún tilkynnti mér líka að hún hefði nokkrum sinnum farið út að skemmta sér, orðið ofurölvi og endað uppi í rúmi með einhverjum ókunnugum karlmönnum.
Þar að auki hefur hún haldið vandlega leyndu fyrir mér að skuldastaða heimilisins er mun verri en ég hélt vegna drykkju hennar, m.a. skuldar hún kreditkortafyrirtækjunum háar upphæðir. Ég varð óskaplega reiður þegar hún sagði mér þetta, pakkaði saman dótinu mínu og rauk á dyr. Hún ákvað þá að fara í meðferð og ég flutti heim til að hugsa um börnin okkar á meðan hún væri að klára hana. Þessar vikur sem hún var í burtu notaði ég til að hugsa minn gang og reyna að gera mér grein fyrir stöðunni.
Elska hana enn
Innst inni elska ég enn konuna mína, þ.e. þá konu sem ég hélt að hún væri. Ýmislegt hefur líka rifjast upp fyrir mér sem gert hefur það að verkum að ég sé nú að ég kaus að loka augunum fyrir mörgu sem sannarlega benti til að hún ætti við vandamál að stríða. Þegar við kynntumst drakk hún mikið. Ég vissi að hún var mikið á djamminu en bjóst við að hún myndi bara hætta því þegar við stofnuðum heimili. Hún varð alltaf dauðadrukkin þegar við fórum út saman að skemmta okkur og hún fékk sér ævinlega einn bjór til að rétta sig af daginn eftir. Mér var ekki vel við þetta en hún hló bara að mér og sagði að það væri ekkert mál að laga timburmennina á þennan hátt. Hún hefði gert það lengi.
Ég kaus að trúa þessu og þegar ég horfi til baka þá sé ég að oft hefur hún ekki látið sér nægja þennan eina bjór. Konan mín er hins vegar þannig að hún breytist lítið við að fá sér í eitt glas eða tvö. Hún er róleg og hæglát að eðlisfari og eina breytingin sem maður verður var við er þegar hún skyndilega er orðin blindfull, drafandi og slagandi. Ég skammaðist oft í henni fyrir að drekka of mikið þegar við skemmtum okkur og hún lofaði ævinlega að passa sig betur næst. Hún hafði líka alltaf afsakanir á reiðum höndum. Hún hafði verið svo illa fyrirkölluð í þetta skiptið, hálflasin í annað, á túr í það þriðja og svo framvegis og svo framvegis. Alltaf trúði ég að þetta væri rétt.
Hvers vegna á ég að sýna skilning? Ég gerði ekkert af mér annað en kannski það að vera of saklaus og hrekklaus. Hvers vegna á hún að fá tækifærin en ég ekki neitt?
Sjálfur hef ég enga reynslu af alkóhólisma. Heima hjá mér var vín notað í miklu hófi og ég hef aldrei drukkið mikið sjálfur. Ég hef aðeins tvisvar á ævinni orðið verulega fullur. Kannski varð vanþekking mín til þess að þetta náði að ganga svona langt. Undanfarið hef ég heyrt ýmislegt frá börnunum mínum sem gefur mér til kynna að þau hafi sannarlega vitað hvað gekk á og að þau hafi mátt horfa upp á ýmislegt. Yngri börnin voru reyndar mjög meðvirk og hjálpuðu móður sinni að halda þessu leyndu fyrir mér en elsta barnið sagðist oft hafa verið komið á fremsta hlunn með að segja eitthvað við mig og kom iðulega með athugsemdir sem hefðu átt að nægja til að ég kveikti á perunni en ég gerði það ekki.
Eitt kvöldið hafði konan mín lengi verið að sýsla við þvott niðri í kjallara þegar elsta barnið sagði: „Heldurðu að þú ættir ekki athuga með hana mömmu? Hún er svo lengi í þvottahúsinu.“ Ég nennti ekki að standa upp frá sjónvarpinu og hummaði þetta því fram af mér. Núna veit ég að konan mín var að drekka þetta kvöld og fór beint í rúmið þegar hún kom upp.
Á ég að sýna skilning?
Alkóhólismi er sjúkdómur, eins og allir sjálfsagt vita, en mér líður alls ekki eins og konan mín sé veik. Mér finnst hún hafa svikið mig á lúalegan og andstyggilegan hátt og ég er öskureiður. Sumir vinir okkar og ættingjar hafa litið hér við og flestir talað um að ég verði að gefa henni tækifæri. Hún hafi farið í meðferð og það sé stórt skref. Þegar ég heyri þetta finnst mér troðið á mínum tilfinningum og mér sem manneskju.
Hvers vegna á ég að sýna skilning? Ég gerði ekkert af mér annað en kannski það að vera of saklaus og hrekklaus. Hvers vegna á hún að fá tækifærin en ég ekki neitt? Er ekki ástæða til að biðja mig afsökunar? Það er eftir allt saman búið að rústa mínu lífi. Fjárhagsstaðan er slík að það mun taka mörg ár að vinna sig út úr skuldunum, ef það tekst nokkurn tíma. Börnin mín eru tortryggin og miður sín og konan mín hefur haldið fram hjá mér með einhverjum og einhverjum úti í bæ. Á ég að fyrirgefa þetta allt bara vegna þess að einhver segir mér að þetta sé sjúkdómur?
Krabbameinssjúklingar stunda sennilega ekki framhjáhald og líklega gera hjartasjúklingar það ekki heldur. Af hverju er alkóhólismi þá afsökun fyrir slíku meðan sykursýki er það ekki? Ég er svo reiður og bitur að ég veit ekki einu sinni hvernig ég á að fara að því að byrja að vinna mig út úr þessu. Og það versta er að mig langar ekki að fara frá börnunum mínum og búa einn. Mig langar heldur ekki til að vera með nokkurri annarri konu en henni.
Losaðu þig við hana
Besti vinur minn hringdi um daginn og hvatti mig til að losa mig við konuna. Hann taldi að ég gæti fengið forsjá fyrir börnunum og ætti sannarlega að reyna það. Að minnsta kosti vildi hann meina að við hefðum bæði gott af því að búa hvort í sínu lagi um tíma og eftir kannski ár eða svo mætti endurmeta þær tilfinningar sem við hefðum hvort til annars. Hann áleit að hún væri með hegðun sinni búin að fyrirgera öllum rétti sínum til barnanna og enginn ætti að sætta sig við svona framkomu eins og ég hefði þurft að þola.
Meðan ég hlustaði á hann fannst mér hann hafa rétt fyrir sér en eftir á að hyggja er ég ekki viss. Ég finn fyrir meðaumkun í hennar garð og ég vil alls ekki taka börnin af henni. Samt vil ég ekki að þau þurfi að þola að horfa upp á mömmu sína drukkna á hverjum degi. Konan mín hefur skrifað mér og sagt að hún hafi ekki verið ábyrg gerða sinna þegar hún var full því alkóhólið hafi tekið af henni völdin. Hún myndi aldrei gera þá hluti edrú sem hún gerði drukkin. Ég trúi því en veit ekki hvort það er nóg til að ég geti fyrirgefið henni.
Ég skammaðist oft í henni fyrir að drekka of mikið þegar við skemmtum okkur og hún lofaði ævinlega að passa sig betur næst.
Enn er ég á báðum áttum um hvort ég telji hjónabandið þess virði að bjarga því. Nú þegar hefur sjúkdómur hennar kostað mig miklar þjáningar, bæði tilfinningalega og fjárhagslega. Ég þurfti að taka mér frí í vinnunni svo hún gæti farið í meðferð og það hefur ekki hjálpað upp á skuldirnar. Annan daginn langar mig mest að slíta öll tengsl við þessa manneskju og hinn finnst mér við alveg geta yfirstigið þessa erfiðleika og byrjað nýtt líf. Undanfarið hefur mér oft fundist ég vera að því kominn að gefast upp og leitaði því til heimilislæknisins míns. Hann vísaði mér á ráðgjafa sem ég hef mætt í nokkra tíma hjá.
Í fyrsta tímanum benti ráðgjafinn mér á þá staðreynd að ég væri að ganga í gegnum sorgarferli. Hann lýsti einnig fyrir mér hvernig það gengi fyrir sig og sagði að best væri að leyfa sorginni að hafa sinn gang. Ég þyrfti engar ákvarðanir að taka fyrr en ég færi að jafna mig. Ég ætla að fara að ráðum hans en mikið vildi ég að einhver leið væri til að flýta þessu ferli eða gera það bærilegra.