Íslensk börn hafa lengi vel haft þann sið að stilla skó sínum í gluggann að kvöldi þegar jólasveinarnir koma til byggða. Hvaðan kemur þessi skemmtilegi siður og hver ætli sagan sé á bak við hann?
Samkvæmt haldgóðum heimildum er siðurinn margra alda gamall og tengist sögunni um heilagan Nikulás. Þessi umræddi maður er talinn hafa verið uppi á 3. og 4. öld eftir Krist og hóf að starfa sem prestur aðeins 17 ára gamall. Margar sögur fara af gjafmildi Nikulásar en hann var af ríku fólki kominn og gaf allan sinn auð til fátækra og þá sérstaklega barna. Eftir andlát hans þann 6. desember einhvern tíma á milli áranna 342-350, fóru menn að tengja hin ýmsu kraftaverk við nafn Nikulásar og var hann í kjölfarið gerður að verndardýrðlingi barna og sjómanna. Dýrkun Nikulásar dreifðist víða og var hann afar vinsæll meðal kaþólikka í Evrópu og í kringum árið 1100 er farið að tengja hann jólahátíðinni.
Á messudegi heilags Nikulásar var hefð fyrir því að færa börnum gjafir en siðurinn er talinn vera uppruninn út frá helgisögu sem var á þann veg að Nikulás hafi vakið þrjá unga drengi aftur til lífs sem höfðu verið myrtir. Vegna helgisögunnar og án efa fjölda annarra sagna, tóku börn upp á því að hengja sokka upp við glugga eða dyr. Heimildir segja að börn hafi útbúið lítil skip en síðar var notast við skó eða körfur í þessum tilgangi – einhver í biskupsgervi dýrlingsins Nikulásar deildi svo gjöfum til barnanna. Það voru hinir íslensku sjómenn sem færðu þjóðinni þann sið að setja skóinn í gluggann en þeir komust í kynni við hefðina á ferðum sínum um Evrópu. Siðurinn tók þó ekki bólfestu hér á landi fyrr en upp úr 1930 og að sjálfsögðu var það ekki heilagur Nikulás sem gaf í skóinn – heldur jólasveinarnir okkar þrettán!