Starfsemi Samgöngustofu hefur raskast vegna covid-smits sem upp kom hjá stofnuninni. Hópur starfsfólks er nú í sóttkví og unnið að því að sem flestir vinni verkefni sín heimafyrir til að veita áfram nauðsynlega þjónustu. Líkur eru á að einhver röskun verði á starfseminni þó vonir standi til annars. Þó er ljóst að fresta þurfti flugprófum sem áttu að vera í vikunni vegna hópsóttkvíarinnar.
Samkvæmt heimildum Mannlífs eru til að mynda allir starfsmenn tæknideildar Samgöngustofu í sóttkví sem tefur fyrir allri afgreiðslu á skráningum ökutækja. Beðið er eftir að starfsfólk snúi úr sumarfríum í vikunni til að hægt verði að leysa úr hnútum og afgreiða skráning eins fljótt og auðið er.
Þórhildur Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, staðfestir að smit hafi komið upp hjá starfsmanni fyrir helgi. Sóttvarnaráætlun stofnunarinnar hafði þegar verið virkjuð nokkrum dögum fyrir smitið samkvæmt tilmælum yfirvalda með það fyrir augum að verja heilsuöryggi og starfsemina. „Flestir geta unnið verkefni sín að heiman. Einhverjar tafir hafa orðið á forskráningum ökutækja en unnið að því að eðlilegur gangur verði kominn í það verkefni nú í vikunni. Því miður reyndist nauðsynlegt að fresta flugprófum sem áætluð höfðu verið í vikunni en tekist hefur að veita aðra þjónustu með eðlilegum hætti,“ segir Þórhildur.