Hegðun Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra Íslands, um helgina hefur vakið hörð viðbrögð meðal margra Íslendinga. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur sjálfur sagt að hegðun hennar hafi verið „óheppileg“. Þórdís fór út á lífið með vinkonum sínum og af myndum af dæma þá var tveggja metra reglan þeim ekki ofarlega í huga.
Gunnar Smári Egilsson, fjölmiðlamaður og sósíalisti, segir á Facebook að viðbrögð Þórdísar séu verri en hegðun hennar um helgina. Hann segir að öllum geti misstigið sig en þá á ekki að réttlæta það: „Eitt er að gleyma sér og gera mistök. Allt annað að réttlæta það með því að maður eigi það skilið. Við búum undir ströngu samkomumanni og 2ja metra reglu sem gildir um alla sem ekki deila heimili. Af þessum sökum hefur fólk þurft að sleppa því að mæta í jarðarfarir ástvina og ættingja, fólk hefur gift sig nánast í kyrrþey, ungmenni hafa neitað sér um útskriftarveislur, barnaafmæli hafa verið fámenn eða á zoom og þar fram eftir götunum,“ skrifar Gunnar Smári.
Hann segir að við þessar aðstæður geti ráðherra ekki afsakað þetta með því hún hafi átt skilið að fara í frí. „Daglega mæta sóttvarnaryfirvöld og brýna almenning að taka þessar tilskipanir alvarlega, segja að lang mikilvægasta vörnin sé að við virðum reglurnar. Og meginþorri fólks sættir sig við þetta. Stundum verðum við að fórna einhverju fyrir heill fjöldans og þeirra sem standa veikast; aldraða og fólk með undirliggjandi sjúkdóma sem kórónavírusinn getur valdið fjörtjóni,“ skrifar Gunnar Smári og bætir við:
„Þá kemur fram ráðherra sem segir að hún eigi það skilið að brjóta samkomubannið og 2ja metra regluna vegna þess að hún hafi unnið svo mikið og hafi langað svo mikið að hegða sér eins og engar sóttvarnarreglur væru í gildi.
Ég hef reynt í morgun að skilja fólk sem finnst þetta í lagi. Og mér er ekki að takast það.“