Soffía Sólveig Halldórsdóttir vandar ökumanninum sem ók yfir kött litlu systur sinnar ekki kveðjurnar. Að hennar sögn liggur kisan þungt haldinn eftir að bifreið ók yfir hana og vonast Soffía Sólveig til að geta bjargað henni. Til þess óskar hún eftir fjárstuðningi netverja.
Soffía Sólveig segir köttinn, besta kött í heimi, illa haldinn eftir yfirkeyrsluna. Leia er að hennar sögn sárkvalin, kjálkabrotin og útlit fyrir að hún missi annað augað. „Hún er besti köttur í heiminum, blíð og barngóð, þolinmóð og skemmtileg. Nú liggur Leia þungt haldin en það er mögulegt að hún sé með innvortis blæðingar og heilabólgu. Hún lifir en framhaldið er tvísýnt. Þó eru dýralæknarnir nægilega vongóðir til að vilja reyna að bjarga henni, og það viljum við líka, svo lengi sem það valdi henni ekki aðeins kvölum,“ segir Soffía Sólveig.
Soffía Sólveig þakkar einstaklingnum sem fann Leiu og lét vita af henni. Bílstjórinn sem ók yfir hana án þess að hvorki stoppa né láta vita af slysinu fær ekki jafn góða kveðju. „Ég er mjög sár og reið yfir því að þú skulir ekki hafa séð sóma þinn í því að stoppa og fara með hana á dýraspítala, heldur fannst þér í lagi að keyra bara í burtu. Ég vona að þú gerir þér grein fyrir því hvaða áhrif þetta afskiptaleysi þitt hefur.“
Soffía Sólveig segist fullmeðvituð um að slysin gerast. Til allra þeirra sem engu skeyta um líf gæludýra er hún með skilaboð. „Eldri dóttir mín er nánast óhuggandi. Við hjónin erum búin að gráta úr okkur augun, bæði tvö. Öll fjölskyldan er í áfalli, og veldur þetta okkur einnig óhemju sársauka, þar sem við elskum kisuna okkar óendanlega mikið. Við erum öll í sárum. Yngsta barnið á heimilinu var sem betur fer komin í leikskólann, en hvernig á ég að útskýra fyrir tæplega 2 ára gömlu barni hvar kisan hennar sé, og að hún komi mögulega ekki aftur?“
Soffía Sólveig segir fjölskylduna vilja gera allt til að bjarga Leiu og óskar eftir fjárhagslegum stuðningi fyrir læknakostnaði. Hún segir öll framlög vel þegin og ef svo ólíklega vildi til að eitthvað myndi safnast umfram kostnað mun restin renna til Villikatta.
Ef þú vilt styðja fjölskylduna til að bjarga Leiu þá er hér styrktarreikningurinn: Reikningsnúmer 0311-13-000667. Kennitala 040889-2219.