Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-4.3 C
Reykjavik

Ellikerling

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Skoðun
Eftir / Kolbrúnu Baldursdóttur

Öll eigum við eftir að eldast en á meðan ellikerling er ekki farin að hrjá þá sem komnir eru af besta skeiði þá er fátítt að hún valdi manni hugarangri. Við megum hins vegar ekki gleyma þeim sem báru okkur á höndum sér, sem núna vilja njóta ævikvöldsins áhyggjulaus. Einn góðan veðurdag verðum við í þessum sömu sporum.

Til þess að heimadvöl sé raunverulegur kostur fyrir eldri borgara þarf ýmislegt fleira að koma til í þjónustuþáttum velferðarsviðs. Mannlegi þátturinn má aldrei gleymast þegar verið er skipuleggja þjónustu. Velferðaryfirvöld ættu ávallt að hafa fullt samráð við þjónustuþega og hugsa hvert skref út frá þörfum hans.

Flokkur fólksins berst fyrir bættum kjörum og aðstæðum eldri borgara og öryrkja bæði á Alþingi og í Reykjavíkurborg. Það fréttist á dögunum að matarsending til eldri konu hefði verið skilin eftir á hurðarhúni hennar og sú skýring gefin að hún hefði ekki heyrt í bjöllunni. Þetta er óásættanlegt. Ég ákvað því sem fulltrúi Flokks fólksins í Reykjavík að rýna í hvernig þjónustu velferðarsviðs við eldri borgara í heimahúsum væri háttað. Í þeirri vinnu sem ég vann með þjónustuþegum og aðstandendum kom ýmislegt í ljós sem betur mætti fara. Afraksturinn er 14 tillögur sem finna má í heild sinni á heimasíðunni www.kolbrunbaldurs.is.

Að búa heima með reisn

Þær tillögur sem Flokkur fólksins mun leggja á borð velferðaryfirvalda lúta m.a. að breyttum verklagsreglum hvað varðar heimsendingar á mat og hlutverk sendils, framleiðslu matar og næringargildi hans. Einnig verður lagt til að matarsendingar til eldri borgara sem mælast undir framfærsluviðmiði velferðarráðuneytisins verði gjaldfrjálsar. Jafnframt þarf að auka þjónustu sjúkraþjálfunar, heimahjúkrunar og útvíkka verkefni heimilisaðstoðar.

- Auglýsing -

Flokkur fólksins leggur einnig fram tillögur um ýmsar þjónustunýjungar þ.m.t. útvíkkun á þjónustu heimilisþrifa sem tekur til þvottar, skipta á rúmi, flokkun sorps og sorphirðu. Í tillögupakkanum er einnig lagt til að stöðumat verði tíðar og að dregið verði úr ábyrgð ættingja. Ekki allir eldri borgarar í heimahúsi eiga ættingja sem getur sinnt þessum þáttum. Þá ætti að bjóða eldri borgurum sem búa heima aðstoð með hár og neglur.

Hádegismatur á hurðarhúni

Breyta þarf verklagsreglum og framkvæmdaferli Vitatorgs varðandi matarsendingar til eldri borgara í heimahúsi. Senda ætti matinn út sama dag og hann er eldaður og breyta þarf umbúðum til að auðvelda þjónustuþegum að opna þær. Auðvitað á ekki að skilja hádegismatinn eftir á hurðarhúni nema móttakandi hafi gefið sérstök fyrirmæli um það. Gera ætti ráð fyrir að móttakandi matarskammta ætli sér að taka sjálfur við matnum sínum nema annars konar fyrirmæli liggja fyrir um afhendingu. Ef móttakandi opnar ekki til að taka við matnum sínum er góð regla að hringja í viðkomandi. Ef síma er ekki heldur svarað er hægt að hringja í tengilið (ættingja) sem tekur ákvörðun um framhaldið. Ef ekki er skráður ættingi getur verið ástæða til að upplýsa viðkomandi þjónustumiðstöð.

- Auglýsing -

Heima er best

Þeir eldri borgarar sem búa í eigin íbúðum mæta annars konar hindrunum en þeir sem búa í þjónustuíbúð. Þeir ættu að eiga þess kost að sækja um niðurgreiðslu á þeim þáttum sem eru að jafnaði innifaldir í íbúð í þjónustukjarna. Til dæmis má nefna afslátt af fasteignagjöldum og rafmagni. Einnig væri sanngjarnt að velferðaryfirvöld tækju þátt í húsgjaldi og niðurgreiddu þjónustu sem snýr að garðhirðu, flokkun á sorpi og sorphirðu. Sumir eldri borgarar treysta sér einfaldlega ekki út úr húsi og allra síst ef hálka er og ófærð.

Að lokum

Það er að mörgu að hyggja þegar hugsað er um okkar elstu einstaklinga. Öll munum við örugglega eftir dæminu um eldri borgara sem kom heim eftir legu á sjúkrahúsi og hreinlega gleymdist. Hann átti aðeins malt og lýsi í ísskápnum. Það er von Flokks fólksins að þessar tillögur verði hvorki felldar né þeim vísað frá heldur verði þær skoðaðar með opnum huga af velferðaryfirvöldum og velferðarsviði.

Höfundur er borgarfulltrúi Flokks fólksins.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -