Listamaðurinn Hugleikur Dagsson sat ekki auðum höndum þegar hann var í sjálfskipaðir sóttkví í mái því hann bjó til nýtt spil sem hann lýsir sem „sáraeinföldu samstæðuspili“ og „algerum heilabrjót“. Spilið heitir RíðaDrepaKúra.
„RíðaDrepaKúra eða FuckCuddleKill er spil sem ég bjó til þegar ég var í sjálfskipaðri sóttkví í Svarfaðardalnum síðastliðinn maí. Þetta er í rauninni sáraeinfalt samstæðuspil en samtímis alger heilabrjótur,“ segir Hugleikur um spilið.
„Ég er búinn að prufukeyra spilið mörgum sinnum með vinum mínum og nú er ekki annað eftir nema en að gefa það út. Það verður þó í takmörkuðu „limited edition“ magni fyrst. Í sérstakri „do-it-your-self“ útgáfu þar sem þú færð í raun að búa spilið til sjálfur. Hljómar furðulega, ég veit, en það útskýrist þegar þú sérð það á þessari síðustu sýningarhelgi RíðaDrepaKúra í Þulu,“ segir Hugleikur sem sýnir nú verk í tengslum við nýja spilið í listagalleríinu Þulu.
Á laugardaginn mun Hugleikur taka vel á móti gestum og gangandi og kynna nýja spilið. Þar gefst gestum tækifæri til að festa kaup á spilinu og frumteikningum úr spilinu.
„Ég skapaði heilar níu fígúrur fyrir spilið.“
„Sýningin í Þulu er alfarið byggð á þessu spili, eða nánar tiltekið karakterunum í spilinu. Ég skapaði heilar níu fígúrur fyrir spilið. Sumar þeirra hef ég reyndar teiknað oft áður eins og til dæmis Gula Snjókallinn, Djöfulinn og Forseta Bandaríkjanna. En svo eru þarna glænýjar persónur eins og Slímdrottningin og Hákarlasvínið,“ segir Hugleikur.
Viðburðurinn fer fram í Þulu á laugardaginn á milli klukkan 13.00 og 18.00. „Vegna covid verða einnota hanskar á staðnum fyrir þá sem vilja prófa spilið og aðeins fjórir geta farið inn í einu,“ segir í lýsingu um viðburðinn.