Margir þekkja drykkinn kombucha hér á landi en hann á sér langa sögu í löndum eins og Kína, Japan og Rússlandi. Í dag þekkist hann víða um heim og er vinsæll í Evrópu og Bandaríkjunum sem heilsudrykkur. Kombucha þykir afar ljúffengur og nærandi auk þess að innihalda lítinn sykur og marga gerla sem eru góðir fyrir þarmaflóruna. Hjónin Ragna Björk Guðbrandsdóttir og Manuel Utierrez eru stofnendur fyrsta kombuchabrugghússins á Íslandi og við fengum að vita meira um þennan heilsusamlega gerjaða drykk.
Fyrstu drykkirnir komu í sölu fyrir um þremur árum og síðan þá hefur Kombucha Iceland notið vaxandi vinsælda. „Fyrst settum við upp einskonar kombucha-bari í fjórum verslunum. Frú Laugu, Bændur í bænum, Mamma veit best og jógastöðinni Sólir. Þar getur fólk komið með eigin umbúðir og dælt sjálft á sínar flöskur. Hugsunin hjá okkur var að koma drykknum á markað sem fyrst og í leiðinni var þetta góð leið til að endurnýta umbúðir sem fellur vel að okkar gildum. Síðan varð þetta bara rosalega vinsælt og við munum halda áfram með barina. Núna er líka hægt að kaupa drykkinn á flöskum víða, eins og í Krónunni, Melabúðinni, Brauð og Co, Gló, Lamb Street Food, Fjarðarkaupum, Háskóla Íslands og fleiri stöðum,“ segir Ragna Björk.
Áhugi frá barnæsku
Þau hjónin segja okkur frá upphafinu að kombucha-ævintýrinu. Manuel hefur haft mikinn áhuga á gerjun alveg frá barnæsku. Hann ólst upp á Kúbu og þar fylgdist hann með frá unga aldri og af miklum áhuga þegar foreldrar hans gerjuðu hefðbundna drykki sem þar eru vinsælir.
„Ég ólst upp við að fylgjast með allskonar gerjun. Það þurfti stóran pott og ýmsar græjur til að gera þetta. Hráefni eins og plómur og hrísgrjón var notað við gerjunina og þeir ávextir sem fengust úr nærumhverfinu. Ég hef alltaf haft áhuga á að gera eitthvað sjálfur með þetta og hef prófað allskonar gerjun í mörg ár, t.d. bruggað bæði bláberja- og krækiberjavín og búið til mínar eigin uppskriftir. Svo rakst ég á fyrir um sex árum forna aðferð á Netinu við að gerja te, sem sagt kombucha, og ég heillaðist af þeirri aðferð,“ segir Manuel.
„Ég ólst upp við að fylgjast með allskonar gerjun.“
Þau hjónin fóru að fikta við þetta heima hjá sér og pöntuðu sér svokallaðan Scoby erlendis frá sem er lifandi örveruþyrping og er grunnurinn í gerjuninni og fóru að prófa drykkinn á sjálfum sér. „Eitt af því sem fékk okkur til að halda áfram var að Manuel fann mikla jákvæða breytingu á sér líkamlega við að drekka drykkinn daglega en hann þjáist af krónísku magavandamáli. Það kveikti í okkur með áframhaldið en líka af því okkur fannst hann einstaklega bragðgóður og á þessum tíma var hann hvergi fáanlegur á Íslandi, þannig að við ákváðum að slá til og deila þessu með sem flestum,“ segir Ragna Björk.
Þau nota fersk hráefni til að bragðbæta kombucha-drykkinn og má þar nefna íslensk ber, rabarbara og myntu. Einnig nota þau innflutta lífræna ávexti líkt og engiferrót og appelsínur ásamt lífrænu grænu, svörtu eða hvítu tei í grunninn.
„Manuel fann mikla jákvæða breytingu á sér líkamlega við að drekka drykkinn daglega en hann þjáist af krónísku magavandamáli.“
Á sér langa sögu
Drykkurinn er talinn upprunninn í Asíu, líklega Kína, eða Rússlandi. Til eru sögur frá bruggun hans fyrir tíma Krists en hann barst síðan til Evrópu snemma á 20. öldinni og nú í dag er hann drukkinn út um allan heim. Gerjuð matvæli hafa verið til lengi víða í heiminum en gerjun er einmitt aldagömul geymsluaðferð. „Það sem er svo gott við drykkinn er að hann inniheldur engin aukaefni, allt ferlið er náttúrulegt og það sem er einstakt er að hann er ógerilsneyddur sem þýðir að hann inniheldur marga góða gerla sem eru góðir fyrir þarmaflóruna. Kombucha Iceland inniheldur mjög lítinn sykur, ekki nema 1,5 g í 100 ml sem telst mjög lítið miðað við marga erlenda framleiðendur. Gott er fyrir þá sem vilja minnka gosneyslu að fá sér Kombucha Iceland í staðinn,“ segir Manuel og brosir. Þau benda á góða bók sem upplagt er að styðjast við ef fólk vill prófa sig áfram heima, hún heitir The Big Book of Kombucha og er eftir Hannah Grum og Alex Lagory.
SCOBY-MASSI AF GERLUM
Notuð er lifandi örveruþyrping við gerjunina sem kallast Scoby (Symbiotic Colony of Bacteria and Yeast) en hann er massi af gerlum og geri sem styðja hvert annað í gerjunarferlinu. Fyrst af öllu er lagað sætt te sem er síðan látið gerjast, Kombucha Iceland er látið gerjast í allt að sex vikur. Svipað ferli á sér stað við framleiðslu á jógúrti, víni og bjór. Scoby-örveruþyrpingin knýr áfram gerjunina og nærist á sykrinum og koffíninu sem er í teinu og breytir því í bragðgóðan og hollan drykk.