Fyrirhugaður Ökuvísir VÍS tryggingafélagsins fær harða gagnrýni inni á Facebook-síðu Ómars R. Valdimarssonar lögmanns. Flestir þeir sem taka þar þátt í umræðunni segja hugmyndina ógeðfellda og eftirlitið sem henni fylgir óboðlegt.
Ökuvísirinn er kubbur sem ökumenn setja í bíla sína og er í raun ökuriti sem fylgist með akstri bílstjóra. Þannig nemur kubburinn til dæmis hvort ekið er of hratt eða hvort ökumaður er í símanum við akstur. Tryggingafélagið stefnir á að nýta gögnin úr ökuritanum í þeim tilgangi að lækka iðgjöld viðskiptavina á þann veg að hegði þeir sér með ábyrgum hætti í umferðinni lækka iðgjöldin.
Ómari lögmanni finnst hugmyndin verulega slæm. „Þetta er með því ógeðfelldasta sem ég hef séð lengi. Hvað er næst? Gegn því að tryggingarfélagið fái afrit af sjúkraskránni þinni og fjölskyldunnar færðu afslátt af líf- og sjúkdómatryggingum?,“ segir Ómar.