Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-8.2 C
Reykjavik

„Fólk sem elskar að borða eru bestu manneskjurnar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Julia Child er mörgum kunn eftir að bíómyndin vinsæla Julia & Julia kom út þar sem hin óviðjafnanlega Meryl Streep lék þessa sjarmerandi og áhugaverðu konu. Julia Child skipar þó stóran sess í uppeldi margra Bandaríkjamanna en bók hennar Mastering the Art of French Cooking olli straumhvörfum og kveikti áhuga margra á því að elda fágaðan franskan mat sem áður þótti með öllu óaðgengilegur nema á fínum veitingastöðum.

Julia Child var fædd Julia McWilliams árið 1912 í Kaliforníu. Fjölskyldan tilheyrði efri stéttum samfélagsins og lifði þægilegu lífi í borginni Pasadena. Julia gekk í Smith College sem þótti góður kvennaháskóli og þar lét hún sig dreyma um að verða rithöfundur. Hún var ævintýragjörn, tók þátt í nánast öllum íþróttaliðum skólans og þráði eitthvað annað en að útskrifast úr háskóla til þess eins að giftast álitlegum manni og ala upp börn.

Seinni heimsstyrjöldin og leyniþjónusta hersins

Sviptingar urðu í bandarísku samfélagi í kjölfar árásarinnar á Pearl Harbour árið 1941. Bandaríkin helltu sér af öllum sínum hernaðarlega krafti í heimsstyrjöldina og það skapaði ýmis atvinnutækifæri fyrir konur. Julia fékk ekki inngöngu í kvennadeild hersins þar sem hún þótti of hávaxin en hún var 1,86 m að hæð. Julia flutti því til Washington D.C. í leit að vinnu og fékk starf á skrifstofu hjá leyni- og upplýsingaþjónustu hersins (The Office of Strategic Services).

Julia Childs: „Fólk sem elskar að borða eru bestu manneskjurnar.“

Meðal þess sem hún vann við hjá leyniþjónustunni var að aðstoða vísindamenn við þróun á efni sem fæla myndi hákarla frá sprengjum sem ætlaðar voru þýskum kafbátum en herinn átti víst í talsverðu basli með forvitna hákarla sem ollu því að sprengjurnar sprungu áður en þa náðu skotmarki sínu. Ævintýraþráin lét ekki á sér standa og Julia var fljót að sækjast eftir því að vinna erlendis. Í mars 1944 fór hún um borð í skip og sigldi til Ceylon, sem er nú Sri Lanka. Seinna fór hún til Kunming í Kína þar sem hún hélt áfram að hjálpa til við þróun á hákarlafælum. Hún gantaðist seinna með að þarna hefði tilraunastarfsemi hennar í eldhúsinu hafist en hennar hlutverk var að sjóða saman efni sem fæla áttu hákarlana frá þeim svæðum sem sprengjurnar voru faldar.

Fann ástina á tímum styrjaldarinnar

- Auglýsing -

Í Kína kynntist Julia samstarfsmanni sínum og tilvonandi eiginmanni, Paul Child. Paul var listamaður og ljóðskáld sem hafði ferðast um heiminn og talaði lýtalausa frönsku. Fjölskylda hans hafði gríðarlegan áhuga á mat og það var í gegnum hann sem Julia kynntist nýrri upplifun á heiminum, í gegnum mat. Paul fékk seinna vinnu fyrir bandarísku utanríkisþjónustuna í París og hjónakornin fluttu til Frakklands. Í Frakklandi kolféll Julia fyrir frönskum mat og lýsti oft fyrstu máltíð sinni þar í landi sem einhverskonar opinberun, en hún gæddi sér á ostrum, sole Meunière (sólkola í sítrónu- og smjörsósu) og hágæða víni. Hjónin nýttu frítíma sinn í að leita uppi vinalega og metnaðarfulla veitingastaði í Parísarborg og Julia kynnti sér franskan mat af mikilli ákefð. Julia hafði þó fyrir þennan tíma litla sem enga reynslu af matseld og eldhússtörfum. Forvitni hennar var þó vakin og hún fór í matreiðslunám við hinn virta Cordon Bleu í París til að ná tökum á franskri matargerðarlist.

Bókin Mastering the Art of French Cooking var fyrst gefin út árið 1961.

Bókin um franska matargerðarlist

Í París kynntist Julia tveimur frönskum konum, Simone Beck og Louisette Bertholle, sem voru að vinna að franskri matreiðslubók fyrir bandarískan markað. Þær sárvantaði bandarískan meðhöfund og báðu Juliu um að taka það hlutverk að sér. Julia sökkti sér í verkefnið næstu tíu árin og prófaði allar uppskriftirnar, breytti hlutföllum og aðferðum og skrifaði af miklum móð. Á þessum árum flökkuðu hjónin á milli evrópskra borga sökum vinnu Pauls. Þrátt fyrir fjarlægðina skrifuðust Simone og Julia á og unnu hörðum höndum að því að klára bókina.

- Auglýsing -

Þegar bókin var loksins tilbúin gekk mjög treglega að sannfæra bókaútgáfur um að taka hana upp á arma sína. Bókin þótti of metnaðarfull, flókin og löng fyrir bandarískar heimavinnandi húsmæður og í reykmettum herbergjum útgáfufélaganna voru þær hvattar til að útvatna hugmynd sína til að auðveldara væri að selja og markaðsetja bókina. Trú þeirra á verk sitt var þessum úrtölum yfirsterkari og að lokum var það fyrir tilstilli Judith Jones, ungs ritstjóra hjá Alfred Knopf, sem Mastering the Art of French Cooking var gefin út árið 1961.

Julia Childs: „Ef þú hræðist smjör, notaðu þá rjóma.“

Það var alls óvíst hvernig bókinni yrði tekið og mörgum þótti Knopf taka ótrúlega áhættu með því að gefa út þessa hnausþykku bók um franska matargerð. Þetta voru þó nýir tímar í bandarískri sögu. Bandaríkjamenn ferðuðust meira en þeir höfðu áður gert, Kennedy-hjónin voru í Hvíta húsinu og franskur bakgrunnur forsetafrúnnar var mörgum konum innblástur og Julia hóf feril sinn sem sjónvarpskokkur. Allir þessir þættir eru taldir spila inn í þá miklu velgengni sem bókin átti eftir að fagna.

Í dag er Mastering the Art of French Cooking löngu orðin klassísk og ætti að vera í bókahillum allra heimakokka sem láta sig franska matargerð varða. Uppskriftir Juliu eru nákvæmar og auðvelt að fylgja þeim eftir og hún er frábær penni. Það hafa margir fullyrt að það var Julia Child sem gerði franska matreiðslulist aðgengilega og framkvæmanlega fyrir Bandaríkjamenn. Margir hafa sagt að hún hafi breytt því hvernig mæður þeirra, og í sumum tilfellum feður, elduðu heima hjá sér.

Umsjón / Nanna Teitsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -